Tilboði Kjarnafæðis í Norðlenska hafnað

0
109

Tilboði kjötvinnslufyrirtækisins Kjarnafæðis í öll hlutabréf Búsældar í kjötvinnslufyrirtækinu Norðlenska var hafnað á hluthafafundi í Búsæld sem haldinn var í Valaskjálf á Egilsstöðum í dag. 70% af hluthöfunum höfnuðu kauptilboðinu, en kauptilboðið þurfti að hljóta minnst 2/3 hluta greiddra atkvæða á fundinum, svo og 2/3 hluta hlutafjár sem farið var með atkvæði fyrir á fundinum til öðlast samþykkis. Einungis 16,6 % hluthafa samþykktu tilboðið en 13,4 % skiluðu auðu. Um 100 hluthafar mættu til fundarins og voru sumir þeirra með umboð fyrir aðra hluthafa sem ekki komust til fundarins.

Búsæld 1
Frá fundinum í Valaskjálf í dag. Mynd: Gunnar Gunnarsson austurfrétt.is

Austurfrétt.is segir frá því að á fundinum hafi verið kynnt mat tveggja fyrirtækja á Norðlenska en þau voru nokkuð samhljóma um að tilboðið væri of lágt. Meðal annars var því haldið fram að í því væri ekkert tillit tekið til ábata af samlegð upp á 500 milljónir króna.

525 bændur á Norður og Austurlandi eiga hlut í Búsæld en næstum allir af þeim eiga minna en 1% hlut í félaginu og stór hluti þeirra á minna en 0,5% í félaginu. Þrír svínabændur eru þar stærstir með samtals 18% hlut. Utan þeirra mun Egilsstaðabúið vera það eina sem á hlut sem er stærri en 1%

Búsæld ehf. var stofnuð í desember 2003 og var markmið félagsins að eignast ráðandi hlut í Norðlenska matborðinu. Búsæld keypti 36,75% hlutafjár í Norðlenska af KEA í apríl árið 2004 og í desembermánuði árið 2007 náði Búsæld svo markmiði sínu er félagið keypti öll hlutabréf í Norðlenska af KEA, Norðurþingi og Akureyrarbæ.

Kjötframleiðendur hafa í gegnum árin lagt til hliðar hluta af andvirði innleggs síns hjá Norðlenska og eignist þannig hver um sig hlut í Búsæld ehf. Fyrstu árin lögðu framleiðendur 4% til hliðar, en í dag er þetta hlutfall komið niður í 1,5%. Hlutur kjötframleiðenda í Búsæld verður að fullu greiddur árið 2017.