Tilboð Kjarnafæðis í Norðlenska í skoðun – Bændur vilja ekki selja

0
215

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum hefur kjötvinnslufyrirtækið Kjarnafæði á Svalbarðseyri sent inn kauptilboð í öll hlutabréf Búsældar í kjötvinnslufyrirtækinu Norðlenska. Búsæld sem á öll hlutabréf í Norðlenska, er félag kjötframleiðenda á norður og austurlandi, allt frá Skagafirði, austur og suður og alveg vestur í Skaftafellssýslu. Að sögn Viðskiptablaðsins og Vísis.is býður Kjarnafæði 750 milljónir króna í allan hlut Búsældar í Norðlenska á genginu 2,0, auk þess að taka yfir skuldir fyrirtækisins.

Kjarnafæði + Norðlenska

“Það eina sem ég get sagt um tilboð Kjarnafæðis er að það er í skoðun hjá stjórn Búsældar”, sagði Óskar Gunnarsson stjórnarformaður Búsældar í spjalli við 641.is í gær. Kauptilboð Kjarnafæðis rennur út 21. maí en ekki er búið að boða til hluthafafundar í Búsæld til að taka afstöðu til tilboðsins.

Aðspurður um hvenær hluthafafundur yrði boðaður sagðist Óskar ekki geta sagt neitt til um það.

Margir en smáir eigendur

Mjög misjafnt er hve stóran hlut kjötframleiðendur eiga í Búsæld, en þrír stórir innleggjendur á svínakjöti eiga td. samtals um 18% í Búsæld. Athygli vekur að einungis fjórir kjötinnleggjendur eiga meira en 1% í Búsæld. Aðeins einn “hefðbundinn” bóndi á yfir 1% hlut auk áðurnefndra svínabænda. Nokkrir bændur eiga á bilinu 0,9-1% hlut en lang flestir eiga minna en 0,9% hlut í Búsæld. 525 bændur alls eiga hlut í Búsæld nú um stundir.

Bændur vilja ekki selja

Enginn af þeim bændum sem 641.is spurði voru hlynntir því að ganga að tilboði Kjarnafæðis í hlut Búsældar. Allir töldu þeir að betra væri að eiga hlutinn áfram. Ljóst er að stjórn Búsældar þarf að hafa hraðar hendur ef boða á til hluthafafundar fyrir 21. maí nk, því einungins 10 dagar eru til stefnu.

 

Búsæld ehf. var stofnuð í desember 2003 og var markmið félagsins að eignast ráðandi hlut í Norðlenska matborðinu. Búsæld keypti 36,75% hlutafjár í Norðlenska af KEA í apríl árið 2004 og í desembermánuði árið 2007 náði Búsæld svo markmiði sínu er félagið keypti öll hlutabréf í Norðlenska af KEA, Norðurþingi og Akureyrarbæ.

Kjötframleiðendur hafa í gegnum árin lagt til hliðar hluta af andvirði innleggs síns hjá Norðlenska og eignist þannig hver um sig hlut í Búsæld ehf. Fyrstu árin lögðu framleiðendur 4% til hliðar, en í dag er þetta hlutfall komið niður í 1,5%. Hlutur kjötframleiðenda í Búsæld verður að fullu greiddur árið 2017.