Til íbúa Þingeyjarsveitar – Sveitarstjóri skrifar

0
295

Kæru íbúar, haustið er komið og veðurblíðan leikur við okkur hér í Þingeyjarsveit. Sumarfríum lokið, skólarnir byrjaðir, haustverkin hafin, ný sveitarstjórn tekin til starfa og allt að komast í fastar skorður. Sveitarstjórn samþykkti þann 19. júní s.l. að ráða mig áfram sem sveitarstjóra og er ég þakklát fyrir að fá tækifæri til að sinna þessu áhugaverða starfi áfram.

Dagbjört Jónsdóttir við Ljósavatn í ljósaskiptunum. Mynd/Gerður Sigtryggsdóttir
Dagbjört Jónsdóttir við Ljósavatn í ljósaskiptunum. Mynd/Gerður Sigtryggsdóttir

Framundan eru stór og viðamikil verkefni hjá sveitarfélaginu og er vinna við þau þegar hafin. Sveitarstjórn samþykkti að ganga til samninga við sérfræðinga til að vinna greinargerð um rekstur og framtíðarskipulag Þingeyjarskóla. Þeirri vinnu fer að ljúka en sérfræðingarnir munu skila af sér um miðjan október. Í framhaldinu verður boðað til íbúafundar þar sem niðurstöður verða kynntar íbúum.

 

 

Endanleg ákvörðun um framtíð Þingeyjarskóla mun liggja fyrir í janúar 2015. Vænta má að ef breyting verður á skólamálum Þingeyjarskóla, muni hún valda óróa og óöryggi hjá einhverjum og ekki ber að gera lítið úr því. Mikilvægast er að við stöndum saman svo vel megi takast.

Verkefni og framkvæmdir við Goðafoss hafa undið upp á sig en veittir hafa verið styrkir úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða til að endurbæta umhverfið við fossinn. Helga Erlingsdóttir var ráðin verkefnisstjóri yfir verkefninu og þegar eru hafnar framkvæmdir. Lögð er áhersla á góða samvinnu við landeigendur og mikilvægt er að þessi fallegi og fjölsótti staður sé okkur öllum til sóma. Framkvæmdir við Goðafoss eru framtíðarverkefni til margra ára.

Goðafoss. Mynd/Dagbjört Jónsdóttir
Goðafoss. Mynd/Dagbjört Jónsdóttir

Mikilla breytinga er að vænta í sorphirðu í sveitarfélaginu og vinnur starfshópur að framtíðarskipulagi í þeim efnum. Sett markmið eru frekari flokkun, að minnka sorp og auka endurvinnslu, fækka gámasvæðum og hafa þau lokuð. Boðað verður til íbúafundar þar sem breytt skipulag verður kynnt íbúum en lykilatriði er að kynna nýtt fyrirkomulag vel svo íbúar geti lagt sitt af mörkum. Þingeyjarsveit og Skútustaðahreppur vinna saman að þessum málum og munu sveitarfélögin auglýsa eftir samstarfsaðilum í verkefnið. Nú þegar hafa Gámaþjónusta Norðurlands og Íslenska gámafélagið haldið kynningar fyrir starfshópinn um fyrirkomulag sorphirðu og þá möguleika sem eru í stöðunni fyrir okkar sveitarfélög. Það er tímabært að Þingeyjarsveit verði umhverfisvænt sveitarfélag og stuðli að umhverfisvitund íbúa en sífellt fleiri láta sig umhverfið miklu varða. Stefnt er að breytingin eigi sér stað um næstu áramót.

Verið er að skoða möguleika þess að ljósleiðaravæða sveitarfélagið en sveitarstjórn stefnir að því að leggja ljósleiðara um allt sveitarfélagið á næstu þremur til fimm árum. Gott og öruggt netsamband er mikil samgöngubót sem bætir búsetuskilyrði líkt og allar aðrar samgöngubætur. Verkefnið er hjá Atvinnumálanefnd sem mun skila tillögum til sveitarstjórnar fyrir áramót.

Á skrifstofu sveitarfélagsins hefur starfsfólk í mörg horn að líta en fyrrgreind verkefni koma öll að einhverju leyti inn á borð þess. Einnig er hafin undirbúningsvinna að gerð fjárhagsáætlunar 2015. Á skrifstofunni starfa nú sex starfsmenn, tveir í fullu starfi og fjórir í hlutastarfi eða 4,55 stöðugildi. Þar að auki eru Bjarni Höskuldsson slökkviliðsstjóri sem er með sína aðstöðu í slökkvistöð á Laugum og Ingólfur Pétursson veitustjóri sem er með aðstöðu að hluta til á skrifstofunni. Ýmsar skipulagsbreytingar hafa verið gerðar á skrifstofunni undanfarið. Gerður Sigtryggsdóttir er skrifstofustjóri og aðalbókari, Bjarni Reykjalín er sameiginlegur skipulags- og byggingarfulltrúi Þingeyjarsveitar og Skútustaðahrepps, Elfa B. Kristjánsdóttir er ritari í afgreiðslu, bókari, sér um málefni aldraðra o.fl. , Margrét Snorradóttir er ritari í afgreiðslu, bókari, sér um húsaleigubætur o.fl., Sigrún Marinósdóttir er innheimtufulltrúi og tók einnig tímabundið við starfi launafulltrúa. Nú stendur til að færa launakerfið hjá okkur yfir í Navision líkt og bókhaldið og til þess að sjá um þá innleiðingarvinnu höfum við ráðið Jóhann Helga Sigmarsson tímabundið frá 1. október.
Hann mun einnig sinna starfi launafulltrúa þann tíma. Jóhann hefur reynslu af launavinnslu og innleiðingu launakerfa en hann hefur unnið síðastliðin 5 ár hjá Kaupfélagi Skagfirðinga við launaútreikning.

Þá höfum við breytt opnunartíma á skrifstofunni, nú opnum við fyrr, lengjum opnunartímann á föstudögum en lokum hálftíma í hádeginu. Opið er frá 09:00 til 15:00 alla daga vikunnar og lokað í hádeginu frá 12:00 til 12:30. Með þessum hætti erum við að auka þjónustu og koma til móts við íbúa og viðskiptavini. Íbúar eru ávallt velkomnir til okkar á skrifstofuna.

Oddviti býður nú upp á fasta viðtalstíma og eru þeir annan hvern mánudag frá kl. 11:00 til 12:00 á skrifstofu sveitarfélagsins. Þegar hefur oddviti haldið einn fund og hvet ég íbúa til að nýta sér þessa fundi. Þá munu aðrir kjörnir fulltrúar einnig bjóða upp á viðtalstíma og verða þeir auglýstir í Hlaupastelpunni og á heimasíðu sveitarfélagsins í tíma.

dagbjört 2
Oddviti með fulltrúum Landsvirkjunar o.fl. á Þeistareykjum. Mynd/Dagbjört Jónsdóttir

Framkvæmdir á Þeistareykjum eru í fullum gangi, búið er að grafa grunn fyrir stöðvarhús væntanlegrar virkjunar og gengið verður frá honum og jarðraski fyrir veturinn. Þá er búið að leggja varanlegan veg frá Húsavík upp á Þeistareyki og nú þegar komið bundið slitlag langleiðina. Ég og oddviti áttum fund með starfsmönnum Landsvirkjunar á Þeistareykjum á dögunum og ekki annað að sjá en staðið sé vel að framkvæmdum.

Fulltrúar Þingeyjarsveitar við Vaðlaheiðargöng í Fnjóskadal. Mynd/Víðir Pétursson
Fulltrúar Þingeyjarsveitar við Vaðlaheiðargöng í Fnjóskadal. Mynd/Víðir Pétursson

 

 

 

 

Framkvæmdir vegna Vaðlaheiðaganga eru nú hafnar í Fnjóskadal og s.l. fimmtudag stóð til að hafa viðhafnarsprengingu líkt og gert var vestanmegin en tafir urðu hjá verktökum svo því var frestað. Engu að síður mættu fulltrúar frá Þingeyjarsveit og stjórn Vaðlaheiðarganga og tóku stöðuna. Þegar er búið að sprengja 2.695 metra frá Eyjafirði en gangagreftri þar var hætt í bili og borinn fluttur yfir í Fnjóskadal. Stefnt er að því að grafa um 2.000 metra austan frá. Vaðlaheiðargöng er mikil samgöngubót sem við fögnum og mun hafa jákvæð áhrif á byggðaþróun í sveitarfélaginu og víðar.

 

Aðalfundur Eyþings verður haldinn í Þingeyjarsveit og við því gestgjafinn þetta árið en sveitarfélög innan Eyþings eru 13 talsins og skiptast á að halda aðalfundinn. Fundurinn verður haldinn dagana 3. til 4. október á Narfastöðum.

Við horfum björtum augum á framtíðina og þau verkefni sem framundan eru.

Góðar kveðjur Dagbjört sveitarstjóri