Til íbúa Þingeyjarsveitar – Sveitarstjóri skrifar

0
300

Kæru íbúar. Nú er sól farin að hækka á lofti eftir vetrarsólstöður og daginn tekið að lengja á ný. Ég vona að þið hafið haft það gott yfir hátíðirnar en nú tekur hversdagsleikinn við og verkefnin framundan eflaust ærin hjá mörgum.  Í okkar ágæta sveitarfélagi er eitt og annað framundan sem mig langar að upplýsa ykkur um.

Dagbjört Jónsdóttir
Dagbjört Jónsdóttir

 

Fjárhagsáætlun fyrir árið 2016 var afgreidd fyrir jól, með 32 millj.kr. jákvæðri rekstrarniðurstöðu. Áætlaðar heildartekjur eru 955 millj.kr. Töluverð lækkun varð á útgjaldalið fræðslumála milli ára eða sem nemur um 39 millj.kr. Í áætlun er gert ráð fyrir lántöku að fjárhæð 100 millj.kr. vegna framkvæmda og fjárfestinga. Skuldahlutfall sveitarfélagsins er nú 62% samkvæmt ársreikningi 2014 en mun ekki hækka þrátt fyrir  nýja lántöku 2016 vegna afborgana á árunum 2015 og 2016 og hækkunar skatttekna. Staðan er því nokkuð góð og reksturinn í jafnvægi.

Breytt fyrirkomulag sorphirðu mun án efa verða eitt af stóru verkefnum þessa árs en eins og komið hefur fram þá munum við taka upp breytt sorphirðukerfi  á nýju ári. Þetta er viðamikið samvinnuverkefni og mikilvægt að allir taki virkan þátt svo vel megi takast. Fleiri kynningarfundir verða haldnir fyrir íbúa nú í byrjun árs þar sem farið verður yfir fyrirkomulagið og ég hvet ykkur til að mæta á þá.

Reiknað er með að tunnuvæðingin eigi sér stað á vordögum en hún er háð því hvenær við náum að taka gámavöllinn, sem við munum setja upp við Stóru‐Tjarnir,  í notkun. Það er ein af þeim framkvæmdum sem gert er ráð fyrir í fjárhagsáætlun 2016. Við á skrifstofu sveitarfélagsins erum svo ávalt tilbúin að veita upplýsingar.

Framkvæmdir eru framundan hjá veitum sveitarfélagsins.  Stefnt er að því að ljúka seinni hluta framkvæmda við kaldavatnslögn í Reykjadal sem ráðist var í á síðasta ári. Vatnsskortur hefur verið í byggðakjarnanaum á Laugum sem valdið hefur vandkvæðum er snýr að heimilum, fyrirtækjum, öryggi og brunavörnum. Einnig er stefnt að framkvæmdum  í hitaveitu en eins og notendur í Reykjadal urðu varir við þá varð heitavatnsskortur um tíma í desember vegna  þrýstingstaps en við því verður brugðist með kaupum á búnaði. Gjaldskrá hitaveitu hækkaði nú um áramótin umfram hefðbundnar gjaldskrárhækkanir en ljóst er að auka þarf tekjur veitunnar til að standa undir viðhaldi og framkvæmdum í framtíðinni. Hitaveitan hefur  verið rekin með tapi og gengið hefur verið á aðalsjóð sveitarfélagsins vegna viðhalds hennar.

Fyrirhuguð lagning ljósleiðara er í vinnslu og ferli. Starfshópur hefur verið að störfum og á næstu vikum ætti að verða ljóst hver næstu skref verða. Ljósleiðarvæðing, sem veita á öruggt netsamband, er mikilvæg og orðin til jafns á við góðar samgöngur og raforkuöryggi í hverju samfélagi. Það er því til mikils að vinna í þessum málum.

Frá og með áramótum mun Ingólfur Pétursson fara í hlutastarf hér í stjórnsýlunni hjá okkur en hann hefur verið í fullu starfi undanfarin ár og sinnt hinum ýmsu störfum ásamt því að vera yfirmaður veitna. Breytingin verður sú að Ingólfur mun einungis gegna starfi yfirmanns veitna og sinna hita‐, kaldavatns‐ og fráveitumálum sveitarfélagsins. Við munum því njóta krafta hans áfram en ég vil þakka Ingólfi fyrir þau fjölþættu störf sem hann hefur sinnt svo vel og lengi fyrir sveitarfélagið. Stefnt er að því að ráða nýjan starfsmann í stað Ingólfs að lokinni endurskipulagningu starfssviða.

Nýtt ár er gengið í garð sem gott er að taka á móti með bjartsýni og jákvæðni að leiðarljósi. Ég hlakka til að takast á við verkefnin og vænti góðs samstarfs við ykkur, kæru íbúar.

Að lokum óska ég ykkur öllum gleðilegs nýs árs og farsældar á árinu 2016.

Dagbjört Jónsdóttir, sveitarstjóri.