Til íbúa Þingeyjarsveitar – Bréf frá sveitarstjóra

0
115

Kæru íbúar. Ekki get ég nú sagt að veðurblíðan hafi leikið við okkur þetta sumarið en eins og segir í góðu kvæði „ef sól er í minni og sól er í sinni er sumar hvern einasta dag“ og með það að leiðarljósi langar mig að upplýsa ykkur um nokkur atriði og það sem framundan er í okkar ágæta sveitarfélagi.

Sorphirða

Dagbjört Jónsdóttir
Dagbjört Jónsdóttir

Mikilla breytinga er að vænta í sorphirðu hjá okkur á næstunni en sveitarstjórn hefur nú samþykkt tillögu starfshóps um framtíðarskipulag sorphirðu í sveitarfélaginu. Í tillögunni er lagt til að gerður verði þróunarsamning um sorphirðu við Gámaþjónustu Norðurlands (GÞN) með áherslu á flokkun til framtíðar, heimili verði tunnuvædd, opnum gámasvæðum verði lokað og byggður verði fullbúinn gámavöllur með móttöku og eftirliti. Skrifað var undir þróunarsamninginn til næstu þriggja ára í júlí sl. og munu Þingeyjarsveit og Skútustaðahreppur fylgjast að í þessu verkefni og njóta þannig samlegðaráhrifa.

Verið er að vinna tillögur um staðsetningu gámavallar með tilliti til staðsetningar, aðgengis o.fl. en fullbúinn gámavöllur er grundvallaratriði svo hægt sé að taka í gagnið nýtt fyrirkomulag. Þróunar- og undirbúningsvinna er hafin og á haustmánuðum verða haldnir íbúafundir og sendir út kynningarbæklingar þar sem gerð verður grein fyrir  nýja fyrirkomulaginu. Lögð verður áhersla á að vinna þetta ferli í samvinnu við íbúa og mikilvægt að fá ykkur með í lið svo vel megi takast.

GÞN sér nú alfarið um sorphirðuna hjá okkur og er með móttökustöð á Hlíðarvelli við Hlíðarfjallsveg á Akureyri. Þangað geta íbúar farið með sorp og annan úrgang m.a. dýrahræ. Ekki er lengur móttaka á Húsavík nema menn greiði sérstaklega fyrir það en þó er enn hægt losa sig við dýrahræ þar á vegum Þingeyjarsveitar.

Gámaplönin okkar verða í óbreyttri mynd til að byrja með en við munum leggja okkur fram við að halda þeim eins snyrtilegum og unnt er hvað varðar losun gáma og umhverfi í kring. Ég vil biðja ykkur um að ganga vel um gámasvæðin okkar, vanda flokkun í gámana og ef einhver óvissa er hvar setja á sorp er best að það fari í almennt og óflokkað sorp. Það er gríðarlega dýrt fyrir sveitarfélagið að skila af sér flokkunargámi þar sem ekki hefur verið flokkað sem skyldi. Þá vil ég benda á að nú eru pappaendurvinnslugámar á þremur stöðum í sveitarfélaginu, á Krossmel, við Jónasarvöll og á Laugum. Gámarnir eru fyrir allan pappa, sléttan pappa, bylgjupappa, skrifstofupappír, dagblöð, tímarit og fernur og hvet ég ykkur til að nýta ykkur þá. Aðrir flokkunargámar eru eins og verið hefur, timbur, járn, spilliefni, garðúrgangur og svo almennt og óflokkað sorp. Allar breytingar á núverandi sorphirðukerfi verða tilkynntar í tíma. Eins vil ég benda ykkur á að hafa samband við skrifstofu sveitarfélagsins ef eitthvað er óljóst með meðhöndlun sorps eða annað sem betur má fara á gámasvæðunum og við munum bregðast við eftir bestu getu.

Skólamál

Breytingar í skólamálum hafa vart farið framhjá neinum enda viðkvæmur og vandmeðfarinn málaflokkur. Þegar skólastarf hefst í haust verða tveir grunnskólar á tveimur stöðum í sveitarfélaginu, Þingeyjarskóli á Hafralæk og Stórutjarnaskóli á Stórutjörnum og þar með er starfsstöð Þingeyjarskóla á Litlulaugum aflögð, sbr. ákvörðun sveitarstjórnar sem tekin var í lok síðasta árs. Ákvörðun sem þessi er ávallt umdeild og sársaukafull, það á við hér líkt og annars staðar og nær ómögulegt að taka ákvörðun sem væri í fullri sátt við alla íbúa. Við getum þó öll verið sammála um að það sem skiptir mestu máli í þessu öllu saman eru börnin okkar og því er mikilvægast, í svona aðgerðum, að standa saman að þeirri ákvörðun sem nú hefur verið tekin svo hún megi takast sem best. Tilgangurinn með þessum breytingum er að bæta félagslega stöðu nemenda og faglegt starf sem og að hagræða í rekstri til lengri tíma litið og gera góðan skóla betri. Nú standa yfir framkvæmdir við Þingeyjarskóla á Hafralæk sem ganga vel og er stefnt að því að ljúka þeim fyrir skólabyrjun í haust. Þá er reiknað með að bjóða öllum íbúum að skoða skólann og sjá þær breytingar sem gerðar hafa verið á aðstöðu nemenda og starfsfólks. Jóhann Rúnar Pálsson mun taka formlega við stöðu skólastjóra þann 1. ágúst n.k.

Mótvægisaðgerðir vegna breytinga á starfsemi Þingeyjarskóla

Anita Karin Guttesen hefur verið ráðin verkefnisstjóri mótvægisaðgerða í 50% starf til áramóta. Sveitarstjórn samþykkti að leggja skólahús Litlulaugaskóla undir stefsemi er tengjast mótvægisaðgerðum vegna breytinga á starfsemi Þingeyjarskóla.  Verkefnisstjóra er ætlað að skipuleggja og halda utan um þá starfsemi sem kemur til með að verða í húsinu. Hugmyndin er að starfsemin verði á sviði sköpunar, þekkingar, tækni, hugverka og handverks. Hér er um afar spennandi verkefni að ræða og mörg tækifæri sem skapast við að búa til slíkan vettvang. Verkefnisstjóri mun hefja störf þann 1. ágúst n.k.

Viðtalstímar oddvita

Oddviti sveitarstjórnar mun bjóða upp á viðtalstíma annan hvern mánudag líkt og verið hefur, frá kl. 10:30 til 12:30 á skrifstofu sveitarfélagsins. Fyrsti viðtalstíminn eftir sumarfrí verður auglýstur í tíma í Hlaupastelpunni og á heimasíðu sveitarfélagsins og hvet ég ykkur til að nýta ykkur þessa tíma.

Ljósleiðari

Sveitarstjórn skipaði í júní sl. stýrihóp vegna lagningar ljósleiðara í sveitarfélaginu og er honum ætlað að hafa umsjón með og stýra vinnu við undirbúning, útboð og lagningu ljósleiðara. Sveitarstjórn ákvað í framhaldinu að ráða verkefnisstjóra til að vinna ákveðna undirbúningsvinnu. Snorri Guðjónsson var ráðinn og mun skila af sér 1. september n.k. Unnið er eftir leiðbeiningum Póst- og fjarskiptastofnunar fyrir opinbera aðila í tengslum við uppbyggingu ljósleiðaraneta. Þetta er stórt og mikilvægt viðfangsefni en markmiðið er að bæta búsetuskilyrði og auka tækifæri íbúa til starfs og náms.

Heimasíða Þingeyjarsveitar

Í haust stefnum við að því að endurgera heimasíðu sveitarfélagsins þar sem gott og skýrt aðgengi að upplýsingum verður haft í fyrirrúmi og tengja hana facebook. Þetta er verkefni sem ég hef lengi haft á döfinni enda mikilvægt að hafa heimasíðu sveitarfélagsins aðlaðandi og notendavæna. Markmiðið er að auka upplýsingaflæði til íbúa á aðgengilegan hátt.

Það er því eitt og annað framundan, spennandi tímar, fullt af nýjum tækifærum og vonandi betri tíð.

Með bestu kveðjum

Dagbjört Jónsdóttir, sveitarstjóri