173. fundur sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar var haldinn í Kjarna í gær. Fyrir fundinum lá þróunasamningur milli Skútustaðahrepps, Þingeyjarsveitar og Gámaþjónustu Norðurlands um sorphirðu í sveitarfélögunum. Samningurinn felur í sér framlengingu á fyrri verksamningi í 3 ár þ.e. frá 1. júní 2015 til 31. maí 2018.

Markmið samningsaðila er að veita íbúum, fyrirtækjum og stofnunum sveitarfélaganna hagkvæma og umhverfisvæna sorphirðu-þjónustu. Áhersla er lögð á að auka skilning og vitund íbúa, stofnanna og fyrirtækja um mikilvægi flokkunar, endurvinnslu og endurnýtingar, þannig að dregið verði úr urðun og sóun en stuðlað að bættu umhverfi í sveitarfélögunum.
Samkvæmt samningnum skal innleiðingu á nýju sorphirðukerfi vera að fullu lokið fyrir 1. september 2016.
Sveitarstjórn staðfesti samninginn með sex greiddum atkvæðum og felur sveitarstjóra undirritun hans. Ragnar Bjarnason T-lista sat hjá við atkvæðagreiðslu.
Nýtt fyrirkomulag verður kynnt íbúum og rekstaraðilum síðsumars með sérstökum kynningarfundum og útgáfu kynningarefnis.