Þrjú stórflóð skópu Dettifoss og Jökulsárgljúfur

0
161

Samkvæmt nýrri rannsókn vísindamanna við Edinborgarháskóla í Skotlandi skópu þrjú risavaxin flóð í Jökulsá á Fjöllum, Dettifoss og Jökulsárgljúfur eins og við þekkjum þau í dag, í kjölfar eldsumbrota í Vatnajökli. Frá þessu segir í vísindaskýrslu sem vísindamenn við Edinborgarháskóla sendu frá sér í gær.

Skýringamynd úr skýrslunni
Skýringamynd úr skýrslunni

Í skýrslunni segir að hið 28 km langa og 100 metra djúpa Jökulsárgljúfur hafi mótast í þremur stórflóðum í Jökulsá á Fjöllum sem féllu á nokkur þúsund ára fresti samkvæmt rannsóknum Edinborgarháskóla.

Visindamenn frá skólanum skoðuðu berg á 5 km kafla í gljúfrinu og gátu með því lesið í landslagið og í framhaldinu komið fram með tilgátu um það hvenær þessi risavöxnu flóð féllu í Jökulsá.

Dettifoss skýrsla
Skýringamynd úr skýrslunni

Samkvæmt rannsóknunum telja vísindamennirnir að fyrsta flóðið hafi fallið fyrir um 9000 árum, það næsta fyrir um 5000 árum og það þriðja og síðasta hafi fallið fyrir um 2000 árum.

Flóðin komu í kjölfar eldsumbrota í Vatnajökli og voru svo öflug að þau færðu fossana þrjá þar með talinn Dettifoss, tvo km. upp eftir farvegi Jökulksár á Fjöllum í hverju flóði fyrir sig.

Edwin Baynes, frá Edinborgarháskóla (University of Edinburgh’s School of GeoSciences) sem stjórnaði rannsókninni, segir að oftast mótist landslag á þúsundum ára en stundum breytist landslagið mjög hratt eins og þessi rannsókn sýnir fram á.

Nánari upplýsingar um þessi risavöxnu flóð og hvernig landið mótaðist má lesa hér: Skýrsla Edinborgarháskóla