Þriðja úthlutun ársins úr Vaxtarsamningi Norðausturlands

0
107

Þriðja úthlutun úr Vaxtarsamningi Norðausturlands 2014 fór fram þriðjudaginn 25. nóvember sl. Tvö verkefni hlutu styrkvilyrði að þessu sinni, annars vegar verkefni  um sögusafn á Raufarhöfn og hins vegar verkefni sem snýr að fýsileikakönnun á beinu flugi milli Húsavíkurflugvallar í Aðaldal og Keflavíkurflugvallar. Samtals námu styrkvilyrðin kr. 4.200.000. Núverandi samningur gildir aðeins út árið 2014 og er síðasti umsóknarfrestur 5. desember nk. Frá þessu segir á vef Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga.

Daníel Hansen, Reinhard Reynisson og Gunnar Jó.
Daníel Hansen, Reinhard Reynisson og Gunnar Jó.

Í verkefninu Raufarhöfn á „gullaldarárunum“ er hugmyndin að endurskapa Raufarhöfn með uppsetningu líkans sem sýnir athafnabæinn eins og hann var um 1960. Líkanið verður í skalanum 1:50 og næst því að draga fram í smáatriðum heildstæða mynd af höfninni og hafnarstarfseminni auk allra bygginga, atvinnu- og íbúðahúsnæðis. Líkaninu og safni af sögu Raufarhafnar til dagsins í dag verður komið fyrir í gömlu verksmiðjunum, en þar er einnig gert ráð fyrir minjagripasölu og kaffihúsi. Með verkefninu er vonast til að blása lífi í gömlu verksmiðjuhúsin, virkja íbúa og styrkja samfélagið.
Sýningarhönnuðir verða Finnur Arnar Arnarson og Þórarinn Blöndal, en verkefnið verður unnið í nánu samstarfi við íbúasamtök Raufarhafnar og félag eldri borgara. Verkefnisstjóri er Daníel Hansen og aðrir samstarfsaðilar eru Menningarmiðstöð Þingeyinga og Ljósfang, sem rekur gallerý og kaffihús á Raufarhöfn.

Verkefnið Alþjóðleg tenging við Aðaldalsflugvöll snýst um að koma á beinu flugi milli Húsavíkurflugvallar í Aðaldal og Keflavíkurflugvallar. Markmiðið er að fjölga ferðamönnum á svæðinu og auðvelda aðgengi heimamanna að millilandaflugi. Leitað hefur verið eftir ráðgjöf frá sérfróðum aðila með mikla reynslu á þessu sviði og jafnframt rætt við nokkra aðila um samstarf. Í verkefninu verður leitast við að yfirstíga hindranir sem kunna að vera á innanlandsflugi frá Keflavík og rannsakaður áhugi flugrekstraraðila á að fara í 100 daga tilraunaverkefni sem, ef allt gengur að óskum, gæti mögulega orðið strax sumarið 2015.
Þrátt fyrir að Icelandair hafi boðið flug milli Keflavíkur og Akureyrar með dræmum árangri var sú tilraun háð það miklum takmörkunum að það þykir ekki sambærilegt við það sem hér er stefnt að.
Umsóknaraðili er Arctic Edge Consulting ehf og samstarfsaðilar Fjallasýn Rúnars Óskarssonar ehf og Gistiheimili Húsavíkur ehf. Verkefnisstjóri er Friðrik Sigurðsson, flugrekstrarfræðingur.

Sem fyrr segir gildir núverandi Vaxtarsamningur aðeins út árið 2014. Unnið hefur verið að nýjum samningum við landshlutasamtök. Enn er þó nokkur óvissa bæði um stöðu fjármögnunar og fyrirkomulag á framkvæmd þeirra. Vonir standa til að þeir verði tilbúnir öðru hvoru megin við áramót og verða þeir kynntir þegar þar að kemur. atthing.is