Þorvaldur Bjarni um Tónkvíslina – Metnaðarfyllra en söngvakeppni Rúv

0
332

Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson tónlistarstjóri Menningarfélags Akureyrar var einn af dómurum á Tónkvísl söngvakeppni Framhaldsskólans á Laugum, sem fram fór í gærkvöld. Hann sagði í spjalli við 641.is í dag að öll umgjörð Tónkvíslarinnar hefði verið mjög metnaðarfull og ef eitthvað er metnaðarfyllri en söngvakeppni sjónvarpsins sem fram fór um sl. helgi.

Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson (t.h.) á Tónkvíslinni 2016
Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson (t.h.) á Tónkvíslinni 2016

“Það kom mér alveg í opna skjöldu hve mörg góð söngatriði komu fram í gærkvöldi og ekki síst hve grunnskólakeppendurnir voru góðir. Þrjár efstu stúlkurnar í grunnskólakeppninni voru td. allar mjög góðar. Flestir keppendurnir völdu sér lög við hæfi og þekktu sín takmörk”, sagði Þorvaldur Bjarni.

 

Um sigurvegarann Elvar Baldvinsson sagði Þorvaldur að hann væri mjög efnilegur og ef hann héldi áfram æfingum þá yrði hann enn betri. “Þetta liggur alveg fyrir honum” sagði Þorvaldur Bjarni.

 

Þorvaldur Bjarni var líka ánægður með hljómsveitina Galiley og sagði þá hafa spilað mjög vel, þrátt fyrir að hafa ekki æft eða spilað mjög mikið saman áður. Þeir spiluðu af öryggi og fagmennsku.

Þorvaldur Bjarni sagði að kynnarnir á Tónkvísl hefðu verið skemmtilegri en kynnarnir á söngvakeppninni á rúv.is og þeir báru virðingu fyrir viðfangsefninu.

Sérstök söngvakeppni í Hofi í apríl.

Nemendafélög Menntaskólans á Akureyri, Framhaldsskólans í Austur-Skaftafellssýslu, Menntaskólans á Tröllaskaga, Verkmenntaskólans á Akureyri, Verkmenntaskóla Austurlands og Framhaldsskólans á Laugum hafa dregið sig úr söngvakeppni framhaldsskóla í ár vegna óánægju með breytt fyrirkomulag. Þess í stað verður líklega haldin sérstök sögnkeppni framhaldsskóla þar sem flytjendur frá áðurnefndum skólum muni keppa í Hofi á Akureyri í apríl.

Samkvæmt heimildum 641.is munu skólarnir sem keppa á þeirri söngkeppni fá að senda tvö lög inn í keppnina.