Þorrablót Ljósvetninga 2013

0
406

Þorrablót Ljósvetninga var haldið í gærkvöld í fínu veðri.  Heimreiðin að Ljósvetningabúð var kertum prýdd. Fólk streymdi prúðbúið að, með troðfull trogin af ýmsum þjóðlegum og hefðbundnum þorramat og mikið af matnum er að sjálfsögðu heimagerður sem fólk hefur lagt mikla natni í að hafa sem allra best, hvort sem það var súrsað, reykt, bakað eða steikt. Það hefur verið hefð í Ljósvetningabúð að hefja þorrablótin á söng sem Sæmundur heitinn Helgason frá Gvendarstöðum samdi, þar sem textanum líkur á orðunum ,,og gjöriði svo vel,, og þá er borðað um stund.                                                  Alltaf er vel tekið á,  í fjöldasöng í Ljósvetningabúð, enda mikið söngfólk á staðnum, um stjórn fjöldasöngs sáu þeir Sigurður Birgisson Krossi og Jaan Alavere sem spilaði á harmonikku. Þorrablótsnefndin fór algjörlega á kostum í skemmtiatriðunum. Eins og hefð er fyrir, var gert góðlátlegt grín að sveitungunum og farið víða um sveitina. Þorrablótsnefndin setti marga frábæra leikþætti á svið, var með vídeósýningu, sungu brag um suma og svo hinar sívinsælu auglýsingar. Rauður þráður í skemmtiatriðunum var ógleymanlegur karakter kallaður Friðþjófur frá matvælastofnun, fór hann á milli bæja og vildi ræða við bændur, kanna hvernig þeim liði og hvernig bændur teldu að bústofninum liði í nærveru þeirra. Allt var þetta mjög vel leikið, vel æft og skemmtilegt. Að borðhaldi loknu lék hljómsveitin SOS frá Húsavík fyrir dansi og ekki annað að sjá en fólk skemmti sér vel.

þorrablótsnefndin: Jóna Björg Hlöðversdóttir Björgum, Hulda Svanbergsdóttir Krossi formaður, Baldur Ófeigur Einarsson Ófeigsstöðum, Sigurður Skúlason Stórutjörnum og Kristján I. Tryggvason Árlandi.
þorrablótsnefndin: Jóna Björg Hlöðversdóttir Björgum, Hulda Svanbergsdóttir Krossi formaður, Baldur Ófeigur Einarsson Ófeigsstöðum, Sigurður Skúlason Stórutjörnum og Kristján I. Tryggvason Árlandi.