Þönglabakkamessa og Laufáskirkja 150 ára

0
275

Hin árlega Þönglabakkamessa verður haldin í Þorgeirsfirði 26. júlí næstkomandi kl. 14.00. Fagurt er í Fjörðum. Sr. Bolli Pétur Bollason Laufásprestur fer fyrir söfnuði í þjónustu en fleiri koma víst þar að. Petra Björk Pálsdóttir organisti stýrir söng og almennri gleði enda erum við þarna að meðtaka fagnaðarerindi.

Skipið Húni ætlar að sigla og fer frá Akureyri kl. 8.00 og frá Grenivík kl. 10.00. Best er að panta ferð á netfangið: steinipje@simnet.is og svo má líka bara mæta um borð. 6000kr. kostar ferðin og er mikið ævintýri. Landleiðin verður jafnframt fær og hægt að aka að Tindriðastöðum og ganga yfir hálsinn. Gott að fólk gefi sér tíma í það, tekur c.a. klst. að aka og aðra klst. að ganga. Þess ber að gæta að viðburðurinn sem slíkur útvegar ekki bílferðir út í Fjörður, fólk þarf að sjá um það sjálft, gott að sameinast í bíla sem þurfa að vera svolítið fjórhjóladrifnir. Takið með ykkur nesti og jafnvel nýja skó ef gömlu eru orðnir lúnir. En þarna er um að ræða frískandi sumarviðburð í góðu samfélagi með Guði og mönnum úti í guðsgrænni náttúrunni.

Þönglabakki 2
Frá messu á Þönglabakka

Laufáskirkja 150 ára 1.-2. ágúst verður afmælishátíðardagskrá í Laufási vegna 150 ára afmælis Laufáskirkju.

Laugardaginn 1. ágúst verður dagskrá í Laufáskirkju sem hefst kl. 14.00. Þar mun Björn Ingólfsson f.v. skólastjóri á Grenivík og nú sjálfstætt starfandi fræðimaður fjalla í erindi um klerka í Laufási, Ingibjörg Svafa Siglaugsdóttir fyrrum prestsfrú og staðarhaldari í Laufási flytur valin kvæði eftir kennimenn er setið hafa staðinn og Petra Björk Pálsdóttir organisti mun stýra söng félaga úr eldriborgarakórnum ,,Í fínu formi” og Engilbert Ingvarsson syngur einsöng.

Laufás
Laufás

Sunnudaginn 2. ágúst verður svo heilmikill hátíðisdagur þar sem þess verður minnst að fyrst var messað í Laufáskirkju 30. júlí árið 1865. Það verður einkum gert með hátíðarguðsþjónustu kl. 14.00 í Laufáskirkju þar sem kirkjukór Laufáss-og Grenivíkursóknar syngur undir stjórn Petru Bjarkar Pálsdóttur og sr. Bolli Pétur Bollason prédikar og þjónar fyrir altari. Að lokinni guðsþjónustu verður messukaffi í Gestastofu og veislutjaldi í boði sóknarinnar og í umsjá kvenfélagsins Hlínar í Grýtubakkahreppi. Almennur söngur verður í messukaffinu og munu þau Petra Björk og Valmar Valljots stýra honum. Afmælisgestir fá veglegan afmælisbækling í hendur þar sem fjallað er um kirkju og stað í máli og myndum. Ritstjóri hans er Björn Ingólfsson.