Þingsályktunartillaga lögð fram um kaup á Grímsstöðum á Fjöllum

0
98

Alþingismennirnir Ögmundur Jónasson og Svandís Svavarsdóttir hafa lagt fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um kaup ríkisins á Grímsstöðum á Fjöllum, þar sem ríkisstjórninni er falið að leita eftir samningi um kaup á Grímsstöðum á Fjöllum og tryggja þannig að jörðin verði þjóðareign.

Grímsstaðir á Fjöllum
Grímsstaðir á Fjöllum

 

Í greinargerð með tillögunni segir að fyrirliggjandi þingsályktunartillaga var síðast flutt sem 55. mál á 144. löggjafarþingi af núverandi flutningsmanni. Eftir að mælt hafði verið fyrir málinu á 144. löggjafarþingi gekk það til allsherjar- og menntamálanefndar en málið varð ekki útrætt og er því endurflutt. Þingsályktunartillagan var fyrst flutt sem 269. mál á 141. löggjafarþingi af Guðfríði Lilju Grétarsdóttur og síðan af Ögmundi Jónassyni og Svandísi Svavarsdóttur sem 276. mál á 143. löggjafarþingi.

 

“Við síðasta flutning var sem fyrr vísað til þess að mikil umræða um áform erlendra auðmanna um kaup á hinum víðáttumiklu Grímsstöðum á Fjöllum leiddi til þess að í lok ágúst 2012 undirrituðu um 150 einstaklingar áskorun til Alþingis og ríkisstjórnar undir yfirskriftinni Grímsstaðir á Fjöllum verði þjóðareign þar sem skorað var á stjórnvöld að koma í kring kaupum ríkisins á jörðinni og gera hana að almannaeign jafnframt því að marka skýra stefnu um ríkiseign á hliðstæðum jörðum. Enn fremur hefur verið bent á það í fyrri greinargerðum, sem enn skal áréttað, að margt mælir með því að ríkið eignist Grímsstaði á Fjöllum alla. Ríkið á nú þegar um fjórðung í þessari landmiklu jörð og að auki tvær jarðir, Víðidal og Möðrudal, suður af Grímsstöðum. Jörðin er og í þjóðlendujaðrinum og þannig beintengd landi í almannaeigu. Tekið skal undir það sem fram kemur í framangreindri áskorun frá 2012 að æskilegt er að mótuð verði stefna varðandi eignarhald og umráð yfir óbyggðum og þá sérstaklega bújörðum sem teygja sig inn á hálendið”, segir einnig í greinargerð með tillögunni.

Sjá nánar á vef Alþingis