Þingeyski bóndinn 2015 – Bergljót og Ingvar á Halldórsstöðum

0
366
Ingvar og Bergljót. Mynd: Ágúst Hilmarsson
Ingvar og Bergljót. Mynd: Ágúst Hilmarsson

Bændagleði Búnaðarsambands Suður-Þingeyinga var haldin í Kiðagili í Bárðardal sl. laugardagskvöld. Styrktaraðilar Bændagleðinnar voru Norðlenska, MS, N1 og Bústólpi sem buðu m.a. upp á gómsætan veislumat framreiddan af starfsfólki Kiðagils sem rann ljúflega ofan í gesti sem voru fjölmargir. Boðið var upp á mikil og góð skemmtiatriði eins og t.d sveitasvarið sívinsæla og “kúadóma” sem fóru fram í bundnu máli hagyrðinga úr héraði.

Viðurkenningin Þingeyski bóndinn var afhent á bændagleðinni í þriðja sinn og urðu hjónin Bergljót Þorsteinsdóttir og Ingvar Ketilsson fyrir valinu að þessu sinni, en þau reka fyrirmyndabúskap að Halldórsstöðum 2 í Bárðardal.

Einkunnarorð viðurkenningarinnar Þingeyski bóndinn eru hógværð, snyrtimennska og sátt við umhverfið.

Þau fengu viðurkenningarskjal og málverk eftir Lilju Björk Þuríðardóttur sem málað er á meira en 100 ára gamla veggþilju úr húsinu á Stóruvöllum í Bárðardal.

Að lokinni skemmtidagskrá upp úr miðnætti var slegið upp dansleik og dansað fram eftir nóttu.