Á 210 fundi sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar sem haldinn var í gær, var m.a. tekinn til umræðu síðasti áfangi á endurnýjun þaks á Þingeyjarskóla. Fyrir liggur kostnaðaráætlun að upphæð 5.1 m.kr. Oddviti Þingeyjarsveitar lagði fram eftirfarandi tillögu:
„Þegar starfsstöðvar Þingeyjarskóla voru sameinaðar í eina í húsnæði Hafralækjarskóla lá fyrir að ráðast þyrfti í umfangsmiklar viðgerðir á þaki húsnæðisins. Hér er um að ræða lokaáfanga í því verki. Þar sem ekki var gert ráð fyrir þessu verki í fjárhagsáætlun fyrir árið 2017 samþykkir sveitarstjórn viðauka við fjárhagsáætlun að upphæð 5.2 m.kr. sem mætt verður með skammtímalántöku. Þessi samþykkt er gerð til að koma í veg fyrir að þessi framkvæmd skerði fyrirhugað viðhald á vinnuumhverfi nemenda og starfsfólks.“
Tillagan samþykkt með fimm atkvæðum fulltrúa A lista gegn tveimur atkvæðum fulltrúa T lista.
Fulltrúar T lista lögðu fram eftirfarandi bókun:
“Það er skoðun fulltrúa T-lista að húsnæði Hafralækjarskóla hefði átt að gefa eða selja á hrakvirði fyrir mörgum árum. Peninga sem búið er að eyða í vitleysu er ekki hægt að nota sem afsökun til að eyða meiri peningum í vitleysu. Fulltrúar T-lista greiða því atkvæði gegn tillögu oddvita.“