Þingeyjarsveit – Samþykkt að auglýsa útboð til ljósleiðaralagningar

0
131

Á 189. fundi sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar sem haldinn var í gær, var samþykkt að auglýsa útboð til ljósleiðaralagningar í Þingeyjarsveit en útboðsgögn vegna ljósleiðaratengingar í Þingeyjarsveit voru lögð fram til afgreiðslu á fundinum.

Þingeyjarsveit stórt

Í fundargerð sveitarstjórnar frá því í gær segir m.a. að fyrir liggi samningur og styrkupphæð frá Fjarskiptasjóði sem stendur sveitarfélaginu til boða, alls 73.575.000 kr. til uppbyggingar ljósleiðarakerfis í dreifbýli á árinu 2016. Einnig liggja fyrir drög að útboðsgögnum og skýrsla frá Ráðrík ehf. um sérfræðiúttekt á fjárhag sveitarfélagsins samkvæmt 66. gr. sveitarstjórnarlaga nr.138/2011.

Eftirfarandi var samþykkt á fundinum.

Sveitarstjórn samþykkir fyrirliggjandi samning um styrkúthlutun og styrkupphæð kr. 73.575.000 frá Fjarskiptasjóði og samþykkir þá upphæð sem viðauka við fjárhagsáætlun 2016. Sveitarstjóra falið að skrifa undir samninginn. Útboðsgögn lögð fram og tekin til umræðu og afgreiðslu, skráð í trúnaðarmálabók. Sveitarstjórn samþykkir að auglýsa útboð til ljósleiðaralagningar í Þingeyjarsveit samkvæmt fyrirliggjandi drögum. Sveitarstjóra falið að auglýsa útboðið í samvinnu við Ríkiskaup.