Þingeyjarskóli – Íþrótta og sundkennsla fyrir eldri nemendur mun fara fram á Laugum

0
191

Sl. mánudagskvöld hélt Foreldrafélag Litlulaugaskóla og Krílabæjar fund með Jóhanni Rúnari Pálssyni skólastjóra Þingeyjarskóla til þess að fræðast um hvernig skólastarfi við Þingeyjarskóla verði háttað næsta vetur. Margt brann á foreldrum og svaraði Jóhann spurningum foreldra og útskýrði sína sýn á skólastarfið.

Litlulaugaskóli haus

Jóhann skýrði frá því að það verði 6 umsjónarhópar við Þingeyjarskóla. 1. bekkur verður sér umsjónarhópur, einnig 2-3. bekkur, 4-5. bekkur, 6-7. bekkur 8-9. bekkur og svo 10. bekkur. Jóhann sér fyrir sér að fram fari teymiskennsla við Þingeyjarskóla og í skólanum verði þrjú teymi og skipaðir teymisstjórar yfir hverju og einu. Eitt teymið verður fyrir 1-3 bekk, annað teymið verður fyrir 4-7 bekk og það þriðja fyrir 8-10 bekk. Ekki er búið að skipa teymisstjóranna.  Staða aðstoðarskólastjóra verður lögð niður en einn af þessum teymisstjórum verður staðgengill skólastjóra þegar hann er ekki við.

Jóhann sagði að nemendum í 5-10. bekk verði ekið í Lauga vegna íþrótta og sundkennslu næsta vetur, enda aðstaðan þar til fyrirmyndar. Nemendum í 1-4. bekk verða kenndar íþróttir á Hafralæk og væntanlega haldin sundnámskeið á Laugum fyrir þann hóp tvisvar til þrisvar yfir veturinn. Það á þó eftir að útfæra það nánar. Tveir kennarar munu sjá um íþrótta og sundkennslu á Laugum og verður Jóhann líklega annar þeirra. Íþróttakennslan verður væntanlega skipulögð þannig að hún fer fram í lok skóladags og nemendur úr Reykjdal verða þá eftir á Laugum að lokinni íþróttakennslu þá daga sem hún fer fram. Sömu skólabílstjórar verða áfram, en nánara skipulag á skólaakstri er enn óljóst.

Tilhögun á námsmati, prófdögum og annafjölda er í þróun við Þingeyjarskóla og verður það unnið í samráði við kennara.

Vonast er eftir góðu samstarfi við UMF Eflingu í Reykjdal er varðar Eflingartíma fyrir eldri nemendur og hugsanlegt er að yngri börnunum verði boðið upp á Eflingartíma á Hafralæk. Óljóst er hvernig verður farið með íþróttakennslu fyrir börnin á Krílabæ, en þau hafa tekið þátt í Eflingartímum með yngstu grunnskólabörnunum á Laugum hingað til. Þar sem leikskólinn Krílabær verður sjálfstæð stofnun ólíkt leikskólanum Barnaborg ræður Jóhann ekki yfir Krílabæ, en hann vonast eftir góðu samstarfi við stjórnendur Krílabæjar til þess að finna lausn á þessu.

Jóhann taldi það æskilegt að þeir nemendur sem eru í fullu tónlistarnámi geti sinnt tónlistarnámi á Laugum eftir skólatíma eins og verið hefur og vill gjarnan hafa nokkurskonar útibú frá tónlistardeild Þingeyjarskóla á Laugum í núverandi húsnæði tónlistardeildarinnar á Laugum.

Jóhann hefur hug á samstarfi við Framhaldsskólann á Laugum í þeim tilgangi að efla samstarf þessara skóla og styrkja báða skólana um leið. Jóhann sagði að það ætti eftir að ræða við stjórnendur Framhaldsskólans um það. Jóhann hefur rætt óformlega við Andra Hnikarr Jónsson formann Eflingar vegna Eflingartíma og hugsanlegt samstarf við Framhaldsskólann vegna íþrótta.

Jóhann var hvattur til þess af fundnarfólki að miða vetrarfrí við þá daga sem vetrarfrí er í Framhaldskólanum á Laugum, til hagræðis fyrir íbúanna, enda félli það vel að því samstarfi sem stefnt er á að hafa á milli skólanna

Aðspurður um hefðir svo sem, þorrablót, árshátíð og ýmsar aðrar hefðir sem eru nemendum og foreldrum kær, að þá langar Jóhann að skapa nýjar hefðir við Þingeyjarskóla í samráði við nemendur, foreldra og starfsfólk.

Að öllu óbreyttu verða 73 nemendur við Þingeyjarskóla. Jóhann taldi einhlítt að foreldrafélögin sameinuðust og aðeins eitt foreldrafélag yrði við Þingeyjarskóla.

Í lok fundarins var eftirfarandi ályktun borin undir fundarfólk.

Fundur sem haldinn var í foreldrafélagi Litlulaugaskóla og Krílabæjar mánudaginn 11.maí 2015 samþykkti með öllum greiddum atkvæðum eftirfarandi ályktun:

Foreldrafélag Litlulaugaskóla og Krílabæjar óskar verðandi skólastjóra og öðru góðu starfsfólki Þingeyjarskóla velfarnaðar í störfum sínum. Einnig vill félagið hvetja íbúa á skólasvæði Þingeyjarskóla til þess að standa við bakið á skólanum og missa ekki sjónar á því sem mestu máli skiptir, velferð og vellíðan barnanna okkar.