Kosning um Þingeying ársins 2013 er hafin. Sex einstaklingar hafa verið tilnefndir og verður því kosið á milli þeirra rafrænt á Skarpi.is, 640.is, Kópaskersvefnum og hér á 641.is næstu þrjá daganna. Úrslit verða svo kunngjörð síðdegis 30. desember á öllum miðlunum.
Eftirtaldir eru tilnefndir í stafrófsröð.

Hreiðar Másson. Hann hefur verið bundinn við hjólastól eftir vinnuslys til sjós árið 2010. Hann fór í nám hjá
Þekkingarneti Þingeyinga og var valinn fyrirmynd í fullorðinsfræðslu í ár. Stærsti kostur Hreiðars að mati kennara hans hjá ÞÞ er það jákvæða viðhorf til lífsins sem hann hefur tileinkað sér. Hann sér engin vandamál, heldur verkefni sem hann þarf að leysa.

María Svanþrúður Jónsdóttir. Hún á þetta skilið fyrir ómælda þrautsegju og aðstoð við bændur á erfiðum tímum og hefur haft hag þeirra fyrir brjósti.

Ósk Helgadóttir. Gerði athugsemdir í frægum pistli hér á 641.is við málflutning bankasstjóra sem linnulaust tala niður hækkanir til láglaunafólks í landinu sem er með um 200 þúsund á mánuði.

Stefán Leifur Rögnvaldsson. Hann er einn af forsprökkum þess að halda verslun áfram á Kópaskeri og hefur staðið sína plikt í því hlutverki og gert allt sem í hans valdi stendur til þess að það gangi upp. Hann er skoðanasterkur hvað varðar réttindi dreifbýlis í Norðurþingi og hefur mikið fram að færa í þeim efnum. Hann hefur komist langt á þvermóðsku sinni, sinnir sínum störfum afar vel hvort sem það er á heimili sínu eða í þágu bæjarfélagsins.

Þorgerður Björg Þórðardóttir. Hún er hönnuður verksins Hemminn Gleðigjafi ásamt félögum sínum í Miðjunni, sem er hæfingarstöð fyrir fatlaða og var verkið frumsýnt í tengslum við list án landamæra 2013 og var sýning á verkinu bæði á Húsavík og Reykjavík í vor. Gerða er höfundur verksins en notendur Miðjunnar vinna verkið og hefur það selst í hundruðum eintaka. Verkið hefur skapað Miðjunni verkefni um ókomna tíð. Í staðinn fyrir að taka höfundarrétarlaun fyrir verkið ákvað Gerða að ágóðinn færi í sjóð sem myndi styrkja list án landamæra á næsta ári. Fyrirmynd verksins er enginn annar en Hermann Gunnarsson eða Hemmi Gunn og kom hann til að taka við fyrstu eintökunum við hátíðlega athöfn þann 13.apríl sl. Gleðigjafinn er einstakt verk sem mun lifa áfram og veita okkur gleði.

Örlygur Hnefill Örlygsson. Örlygur Hnefill hefur á síðustu árum unnið í því að skapa atvinnu og efla félagslíf á Húsavík. Þar á meðal hefur hann líka verið mikið í kastljósi fyrir áhuga á æfingum geimfara og hefur það vakið athygli á svæðinu. Hann leggur mikinn metnað í að vekja jákvæða athygli á Þingeyjarsýslu.