Þegar Víkurskarðið lokast – Fjölbreytt starfsemi í Stórutjarnaskóla

0
113

Það fer oft saman þegar óveður gengur yfir Norðurland og Víkurskarðið lokast, að þá breytist Stórutjarnaskóli í eins konar fjöldahjálparstöð. Óveðrið sem nú er nýgengið yfir var engin undantekning frá því. Frá þessu segir Ólafur Arngrímsson skólastjóri Stórutjarnaskóla á vef skólans í dag..

Veður skólahald

 

Um klukkan 18:30 í gær, fimmtudaginn 4. febrúar, bönkuðu fyrstu ferðalangarnir upp á, Ítalir og Íslendingur, sem rambað höfðu á skólann í stórhríðinni eftir að hafa gefist upp á Víkurskarðinu. Fljótlega bættust svo fleiri við, nokkrir Íslendingar og 5 Kínverjar. Alls urðu þau 13 sem fengu húsaskjól og mat í Stórutjarnaskóla og ein kona, sem einnig strandaði í Ljósavatnsskarði, fékk húsaskjól á einkaheimili skammt frá skólanum.

 

Þegar svona gerist hleypur það starfsfólk skólans, sem býr í skólanum og næsta nágrenni hans, til og hjálpar upp á strandaglópana. Það þarf að búa um fólk og koma því á herbergi og að sjálfsögðu að gefa öllum eitthvað að borða. Stundum hefur fólk þurft að dvelja fleiri en eina nótt en að þessu sinni opnaðist Víkurskarðið upp úr miðjum degi daginn eftir og þá komst fólkið loks burtu.

Allir voru ferðalangarnir þakklátir fyrir hússkjólið og að fá heitt að drekka og eitthvað örlítið í svanginn. Kínverjunum leist reyndar ekki á súrmjólkina og cheriosið og báðu um að fá að elda sjálfir. Það var auðfengið, þeir hituðu sér vatn og suðu sér núðlur eins og Kínverja er háttur.

Erlendu ferðalangarnir voru hissa og þakklátir hjálpsemi Íslendinga, fyrst úti á þjóveginum þar sem þeim var komið til bjargar með því að fá að elta vana Íslendinga í stórhríðinni ofan af Víkurskarði og í skjól í Stórutjarnaskóla. Þakklætið var ekki minna þegar þeir áttuðu sig á því að þeir fengu uppbúin rúm og næringu í skólanum.

Það fer því oft þannig þegar Stórutjarnaskóli fellur niður vegna veðurs og ófærðar að þá skríða strandaglópar af þjóðveginum í skjól í staðinn og njóta umhyggju starfsmanna. ÓA.