Það er gott að hitta fólkið sem lifir fyrir að lækna

0
263

Það sem þið eruð að gera skiptir okkur miklu máli,“ sagði Jakob Jóhannsson, yfirlæknir á Krabbameinsdeild Landspítala Háskólasjúkrahúss, þegar sr. Þorgrímur Daníelsson heimsótti spítalann í dag. Þorgrímur hyggst ganga á 30 fjallstinda í ágúst til að vekja athygli á söfnun þjóðkirkjunnar fyrir nýjum línuhraðli á spítalanum. Frá þessu er sagt á vefnum kirkjan.is

Jakob Jóhannesson, Þorgrímur Daníelsson og Þórarinn Sveinsson við Línhraðalinn Eir. Mynd: tru.is
Jakob Jóhannesson, Þorgrímur Daníelsson og Þórarinn Sveinsson við Línhraðalinn Eir. Mynd: kirkjan.is.

„Það var gott að koma á Landspítalanum og hitta fólkið sem lifir fyrir að lækna,“ sagði Þorgrímur í samtali við kirkjan.is. Jakob Jóhannsson og Þórarinn Sveinsson, yfirlæknar á Krabbameinsdeildinni sýndu Þorgrími línuhraðlana tvo sem eru í notkun á deildinni. Sr. Þorgrímur sagði að það væri gott sjá tækin sem verið væri að safna fyrir:

Þessi tæki eru mikið notuð, þarna fara í gegn allt að sextíu manns á dag. Mér líður vel eftir þessa heimsókn og er enn sannfærðari en fyrr um að ég sé að vinna í þágu góðs málefnis. Það er líka gott að hitta fólk sem lifir fyrir að lækna. Bestu þakkir til allra sem tóku á móti okkur, bæði læknar og hjúkrunarfólk.“

Þorgrímur hefur þegar gengið á nítján tinda. Þessa dagana horfir hann til veðurs og fjallstinda á Vestfjörðum, Norðurlandi og Austurlandi, en hann hefur nú þegar gengið á fjölda fjallstinda á Suðurlandi og Suðvesturlandi. Hann tekur þátt í Hólahátíð um næstu helgi, en þar verður meðal annars gengið upp í Gvendarskál.

Nánar

30 tindar í ágúst á Facebook