Það er ekki samráð að tilkynna um sameiningu og rökstyðja hana ekki

0
64

Í gær barst fjölmiðlum tilkynning frá ráðneyti heilbrigðismála um sameiningu ellefu heilbrigðisstofnana í þrjár. Í bréfi frá heilbrigðisráðherra sem barst sveitarfélögum á Norðurlandi í september í fyrra segir að landinu hafi verið skipt í sjö heilbrigðisumdæmi með lögum síðan 2007 í samráði við sveitarfélög. Það er öllum ljóst að sveitarfélög hafa ítrekað hafnað þeirri sameiningu sem ráðherra stefnir að og krafist þess að hann rökstyðji ákvörðun sína.

Hjálmar Bogi Hafliðason
Hjálmar Bogi Hafliðason

 

Í bréfi ráðherra síðan í september segir jafnframt að enn vanti nokkuð upp á það markmið að starfrækja eina heilbrigðisstofnun í hverju heilbrigðisumdæmi. Hvað hefur breyst síðan í september í fyrra í þessu máli annað en tíminn og baráttuþrek heimamanna á hverjum stað fyrir heilbrigðisþjónustu?

 

Megin ávinningurinn með fyrirhuguðum sameiningum er styrkari stjórnun, aukið sjálfstæði stofnana, hagkvæmni og öruggari og sveigjanlegri þjónusta við íbúana. Þetta á sérstaklega við á jaðarsvæðum. Hvorki ráðuneyti heilbrigðismála né ráðherrann sjálfur hefur fært fyrir því rök hvernig menn ætli að ná þessum markmiðum. Það eru því forkastanleg vinnubrögð að með orðagjálfri og skrautyrðum ætlar ráðherrann að sameina stofnanir á forsendum markmiða sem hann getur ekki fært rök fyrir.

 

Hvernig ætlar ráðherrann að tryggja öruggari og hagkvæmari heilbrigðisþjónustu við íbúa á Raufarhöfn umfram það sem nú er, með fyrirhugaðri sameingu heilbrigðisstofnana á Norðurlandi? Hvernig í ósköpunum ætlar ráðherrann að tryggja aukið sjálfstæði hverrar stofnunar með því að taka stjórnendur af hverri þeirra og sem stuðlar að aukinni miðstýringu og dregur úr sjálfstæði. Ef málið snýst um peninga og menn hyggjast almennt draga úr þjónustu undir því yfirskini að sameina stofnanir þá eiga menn að segja það.

Það virðist ekki vera vilji ráðherra né heilbrigðisráðuneytis að hlusta á óskir heimamanna á hverjum stað. Heldur á að keyra sameiningu stofnana í gegn á grundvelli markmiða sem menn geta ekki rökstutt að leiði til hins betra.

Hjálmar Bogi Hafliðason 1. varaþingmaður Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi.