Þá spyrjum við bara tilvonandi forstjóra

0
105

Fyrir skömmu skipaði heilbrigðis-ráðherra Jón Helga Björnsson sem forstjóra nýrrar heilbrigðisstofnunar Norðurlands. Síðastliðnar vikur hefur undir-ritaður ásamt mörgum öðrum kallað eftir rökstuðningi með sameiningum heilbrigðis-stofnana og svörum við ósvöruðum spurningum.

Hjálmar Bogi Hafliðason
Hjálmar Bogi Hafliðason

 

 

Skemmst er frá því að segja að ráðherra hefur engu, já, alls engu svarað og ekkert samráð haft. Það er því borðliggjandi að nýr tilvonandi forstjóri færi rök fyrir sameiningunni og svari þeim spurningum sem ráðherra svarar ekki. Þá er vert að vekja athygli á því að Jón Helgi Björnsson átti einmitt sæti í nefnd sem fjallaði um sameiningu þeirra heilbirgðisstofnana sem um ræðir og ætti þess vegna að þekkja málið vel.

 

 

 

Tilvonandi forstjóri svari fyrir aulahátt ráðherra

Skarpur sagði frá ráðningu Jóns Helga í síðasta tölublaði. Þar er haft eftir Jóni Helga að ekki sé búið að fullmóta hvernig verði staðið að stjórnun á hverri og einni stofnun. Bíðum nú við, var sem sagt ekki búið að fullmóta þessa sameiningu? Jafnframt kemur fram að engar áætlanir eru til um að dregið verði úr þjónustu og ekki þurfi að laga til í rekstri nýrrar stofnunar. Til upplýsingar þá vantar um 50 milljónir í rekstur Heilbrigðisstofnunarinnar á Akureyri. Hvernig á þá að mæta því? Það sem vekur sérstaka athygli í viðtali Skarps við Jón Helga er að hann segir að þessi sameining sé í raun óhjákvæmileg. Bíðum við, þá spyrjum við bara, af hverju? Jón Helgi svarar þeirri spurningu að einhverju leyti sjálfur með því að segja að þessi hugmyndafræði hafi lengi þótt skynsamleg í ráðuneyti heilbrigðismála. Hvað er svona skynsamlegt? Til að bæta gráu ofan á svart segir Jón Helgi að úr því að þessi ákvörðun hafi verið tekin, þ.e. að sameina allar heilbrigðisstofnanir á Norðurlandi í eina, þá vindi menn sér bara í verkefnið. Maður hlýtur að spyrja sig; bíðum við, til hvers er verið að sameina allar heilbirgðisstofnanir á Norðurlandi í eina? Hvar er svarið við þessari spurningu? Ráðherrann, Kristján Þór Júlíusson, sýnir þvílíkan aulahátt og kemst upp með að svara ekki og færir tilvonandi forstjóra keflið sem hlýtur nú að svara fyrir þessa sameiningu?

„Yfirgengileg vanþekking“

Tekið skal fram að kannski verður þjónustan hagkvæmari, öruggari, betri og sveigjanlegri á nýrri stofnuna og rekstur traustari. Það hlýtur að vera hlutverk nýs forstjóra að svara. Hvernig ætlar hann að tryggja öruggari, betri, sveigjanlegri og hagkvæmari þjónustu umfram það sem gert er í dag? Ráðherra heilbrigðismála hefur sakað sveitarstjórnarmenn að ræða þessi mál „af alveg yfirgengilegri vanþekkingu“. Þar sem Jón Helgi hefur setið sem bæjarfulltrúi síðastliðin 8 ár í bæjarstjórn Norðurþings og gengt starfi forstjóra Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga undanfarin ár ætti að vera auðvelt fyrir hann að svara?

Hjálmar Bogi Hafliðason