T-listi Sveitunga mælist með meira fylgi en A-listi Samstöðu

0
103

Samkvæmt netkönnun sem lesendur 641.is hafa tekið þátt í undanfarna daga mælist T-listi Sveitunga með aðeins meira fylgi en A-listi Samstöðu. Þegar könnuninni var lokað kl 23:30 í gærkvöld höfðu 129 manns greitt atkvæði og 43% sögðust ætla að kjósa T-listann en 37% A-listann. 19% voru óákveðnir. Ef aðeins eru teknir þeir sem tóku afstöðu fær T-listinn tæp 54% (56 atkvæði) en A-listinn rúm 46% (48 atkvæði). Samkvæmt þessu fær T-listinn fjóra fulltrúa í sveitarstjórn en A-listinn þrjá fulltrúa og tapar tveimur fulltrúum frá síðustu kosninum og meirihlutanum í Þingeyjarsveit í leiðinni.

Könnun

Áræðanleiki könnunarinnar er ekki mikill og varast ber að draga of miklar ályktanir af niðurstöðunni. Aðeins munar 8 atkvæðum á listunum og svo eru ansi margir óákveðnir (19). Könnunin var framkvæmd meira til gamans og var engin leið að tryggja að einungis kjósendur af kjörskrá í Þingeyjarsveit hafi einir tekið þátt í henni.

 

Kjörfundur hefst í Ljósvetningabúð kl. 10:00 og stendur a.m.k. til kl. 18:00. Samkvæmt  66. gr. laga um kosningar til sveitarstjórnar nr. 5/1998 má ekki slíta atkvæðagreiðslu fyrr en átta klukkustundir eru liðnar frá því að kjörfundur hófst og ekki fyrr en hálf klukkustund er liðin frá því að kjósandi gaf sig síðast fram. Kjörfundi skal þó eigi slíta síðar en kl. 22:00 á kjördag. Á kjörstað skal kjósandi gera grein fyrir sér með framvísun skilríkja eða á annan fullnægjandi hátt.

Búast má við að úrslit verði ljós um kl 21:00 í kvöld og greint verður frá niðurstöðunni hér á 641.is þá um leið.