Svör meirihluta sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar vegna viðhalds á Þingeyjarskóla

0
125

Ritstjóri 641.is sendi sveitarstjóra, byggingafulltrúa og meirihluta sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar nokkrar spurningar í leiðara á 641.is sl. þriðjudag. Svarbréf barst seint í gærkvöld frá meirihlutanum. Lesa má það hér fyrir neðan.

logo Þingeyjarsveit

 

 

 

 

 

 

Opið bréf til Hermanns í Lyngbrekku

Sæll Hermann

Á síðu þinni 641.is skrifar þú í gær greinarstúf þar sem þú setur fram nokkrar spurningar til meirihlutans, sveitarstjóra og skipulags- og byggingarfulltrúa sveitarfélagsins vegna viðhalds Þingeyjarskóla. Nú er það svo að í litlu sveitarfélagi er stjórnsýslan lítil og hefur í ótrúlega mörgu að snúast svo við undirrituð  svörum fyrir okkur og þá sem spurningunum var beint til.

Þessar framkvæmdir eru undir stjórn sveitarstjóra og yfirmanns fasteigna/skipulags- og byggingarfulltrúa og þau kölluðu sér til ráðuneytis skólastjóra Þingeyjarskóla, og fulltrúa kennara. Því auðvitað er það svo að þeir sem unnið hafa og vinna munu í húsnæðinu hafa gagnlegar hugmyndir um fyrirkomulag og skipan. Í þessum hópi sitja ekki kjörnir fulltrúar því þeir tímar eru liðnir að þeir séu með nefið niðri í störfum stjórnsýslunnar. Hvað það snertir að framkvæmdir séu hafnar þá er það svo að í fjárhagsáætlun 2015 sem sveitarstjórn hefur samþykkt er gert ráð fyrir ákveðinni upphæð til viðhalds fasteigna sveitarfélagsins. Sveitarstjóri og yfirmaður fasteigna hafa heimild til að framkvæma innan fjárhagsáætlunar, þar erum við nú.  Ef breytt er út af samþykktri fjárhagsáætlun þarf að samþykkja viðauka við áætlun í sveitarstjórn.  Kostnaðaráætlun til lengri og skemmri tíma er í vinnslu hjá þessum starfsmönnum og þegar hún er tilbúin verður hún lögð fyrir sveitarstjórn til umræðu og ákvörðunar. Þar verður stefnan mótuð um forgangsröðun og framkvæmdahraða.

Hvað varðar spurningu þína um framkvæmdir á heimsvistargangi þá er verið að útbúa þar aðstöðu fyrir kennara. Ástæðan fyrir því að þær framkvæmdir eru hafnar er sú að hægt var að fara í þær strax þrátt fyrir daglegt skólastarf. Gert er ráð fyrir því að kennarar geti komið sér fyrir í nýju rými nú í vor, áður en þeir fara í sumarfrí.

Það er stefna meirihluta sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar að skapa nemendum og starfsfólki Þingeyjarskóla hlýlegan, gefandi og starfsvænan vinnustað með sem hagkvæmustum hætti.

Nú er okkur ljóst Hermann að við erum ekki sammála um þær breytingar sem verið er að gera á starfsemi Þingeyjarskóla en við getum fullvissað þig um það að allir sem að þessum breytingum koma eru að vanda sig með hagsmuni nemendanna og sveitarfélagsins sem heildar að leiðarljósi.

Úr því við erum í spurningum þætti okkur vænt um að þú svaraðir okkur til um það hver eru leiðarljós og markmið 641.is. Í von um að það yrði okkur og öðrum til glöggvunar á því fyrir hvað síðan stendur:

  1. Er hún netmiðill sem flytur fréttir úr héraði?
  2. Er hún málgagn T-listans og eða þeirra sem ekki eru sammála stefnu meirihluta sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar?
  3. Er hún áróðursblogg sem þjónar og mótast af persónulegum skoðunum eigandans?

Jafn gott og mikilvægt og það er að hafa fréttamiðil í sveitarfélaginu sem þjónar hagsmunum íbúanna þá er því miður ekki hægt að líta á miðil sem fréttamiðil sem flytur bara einhliða fréttir. Það eru ekki hagsmunir íbúa að fá að vita hlutina út frá afstöðu einstakra hópa. Öll höfum við gott af gagnrýni en gagnrýni sem er einhliða getur ekki þjónað hagsmunum íbúa, íbúar eiga skilið að vita báðar hliðar. Allir eru frjálsir að skoðunum sínum og gott að sem flest sjónarmið komi fram. Það er vont þegar aðilar sigla undir fölsku flaggi. Ef um persónulegar skoðanir er að ræða hjá 641 þá væri best að miðillinn héti réttu nafni „bloggmiðill Hermanns“. Ef miðillinn er að þjóna einhverjum sérstökum hópi þá væri best að hann héti eftir þeim hópi. Ef miðillinn trúir því í alvöru að hann sé að flytja okkur óhlutbundnar fréttir þá er það okkar skoðun að það vanti talsvert þar uppá og við biðjum um að menn vandi vinnubrögð.

Með von um að veðrið batni

  • Samstaða

Arnór, Margrét, Árni Pétur, Ásvaldur og Heiða.

 

(Svör við spurningum meirihlutans verða birt síðar í dag)