Svínabóndi svarar fyrir sig

0
3193

Ingvi Stefánsson svínabóndi í Teigi/Pálmholti birti pistil á fésbókarsíðu sinni nú í kvöld sem vakið hefur mikla athygli. Í pistlinum lýsir hann sinni sýn á umfjöllun MAST og fjölmiðla um meintan slæman aðbúnað á Íslenskum svínabúum.

Í ljósi umræðu síðustu daga um slæman aðbúnað dýra á gyltubúum landsins hef ég ákveðið að stíga fram og lýsa minni sýn á stöðu mála. Vonandi verður umræðan málefnaleg og án mikilla gífuryrða. Eins og þið flest vitið á ég tvö svínabú, annað er gyltubú í Pálmholti í Reykjadal og hitt er grísaeldisbú í Teigi, Eyjafjarðarsveit. Árið 2008 keypti ég svínabúið í Pálmholti og sameinaði rekstri svínabúsins á Teigi. Þar sem bæði bú voru með allt framleiðsluferlið (gyltur og grísaeldi) var strax farið í mjög kostnaðarsamar framkvæmdir til að uppfylla þau lög og reglugerðir sem þá voru í gildi. Allar framkvæmdir voru gerðar í góðu samstarfi við MAST. Með nýjum lögum um velferð dýra er búið að úrelda þessa fjárfestingu og ég hef allt að 10 ár til að bæta aðbúnað til samræmis við nýjar kröfur. Það er margt mjög jákvætt – sem snýr að aukinni velferð dýranna – í nýju lagaumhverfi. Það sem mér finnst jákvæðast er að allar gyltur skulu hafðar í lausagöngu og básahald verður að mestu leyti aflagt. Þetta skref var löngu orðið tímabært enda hefur svínaræktin hérlendis tekið gríðarlegum framförum í kynbótum á síðustu 10-15 árum. Ein afleiðingin af því er því sú að gylturnar okkar eru orðnar stærri og þurfa því meira pláss en áður. Til að taka tillit til þessa ákvað ég að hafa 15% af básunum stærri en lágmarkskröfur gerðu ráð fyrir. Eftir á að hyggja þykir mér svekkjandi í dag að ég hafi ekki verið framsýnni árið 2008 og farið meira með gyltur í lausagöngu en lög gerðu ráð fyrir. En það er víst auðvelt að vera vitur eftir á.

Mynd 19
Mynd 19

Mig langar einnig til að koma inn á umræðuna um legusár á gyltum. RÚV hefur birt myndir af legusárum gyltna (sú ljótasta er reyndar af erlendu búi) ásamt því að birta tölfræði um að tíðni legusára á íslenskum svínabúum sé á bilinu 15-50%. Þetta eru beinlínis rangar tölur og hef ég bæði leiðrétt fréttamann RÚV ásamst starfsmanni MAST hvað þessi mál varðar. Þær tölur sem þarna er vísað til eiga við um gyltuhópa sem eru nýkomnir úr goti og eru vel innan við 10% af heildarhjörðinni. Með þessum orðum er ég ekki að réttlæta legusár með nokkru móti. Þau eru vandamál í svínarækt hér á landi sem og í nágrannalöndunum. Í þessu – eins og ýmsu öðru – þurfum við svínabændur að bæta okkur í. Það er samt slæmt þegar fréttaflutningur er ekki réttur, þannig var sérstaklega nefnt til samanburðar að tíðni legusára í Noregi við slátrun gyltna væri um 10%. Sæmbærileg tölfræði fyrir mitt gyltubú – það sem af er þessu ári er rúm 7%. Af hverju er verið að bera saman epli og appelsínur í þessu tilviki? Þ.e. annars vegar mælingar á versta gyltuhópnum inni á svínabúi hér á landi við gyltur í sláturhúsi í Noregi þar sem bændur eru beittir fésektum ef gyltur koma inn til slátrunar með legusár. Spyr sá sem ekki veit, af hverju leiðréttir fréttastofa RÚV þetta ekki eftir ítrekaðar ábendingar, eða fulltrúi MAST? Ekki hef ég svörin við þessu. Þá þykir mér einnig slæmt að við svínabændur höfum þurft að frétta af þessu í gegnum fjölmiðla. Einnig vissi ég ekki af því að haldið væri sérstaklega utan um tíðni legusára við slátrun. Það kom einungis fram í síðustu viku í samtali sem ég átti við stafsmann MAST. Það er að mínu mati staðreynd að samskipti á milli okkar svínabænda og MAST eru í afleitum farvegi og má segja að steininn hafi tekið úr í verkfalli dýralækna. Þetta er afleit staða fyrir báða aðila og vonandi tekst okkur að byggja upp gagnkvæmt traust. Ég vil í þessu samhengi nefna að samstarf mitt við fulltrúa MAST á mínu starfssvæði hefur heilt yfir verið til fyrirmyndar.

Mynd 22
Mynd 22

Þá að skýrslu MAST sem fjölmiðlar hafa verið að birta myndir úr. Nú vil ég byrja á því að taka það fram að myndir nr 19 og 22 tilheyra mínu búi og eru hér fyrir neðan. Þetta eru einu myndirnar sem tilheyra mínu búi í skýrslunni. Á fyrri myndinni er um að ræða gyltur í gotbásum sem eru ný orðnir ólöglegir. Þrátt fyrir það tel ég að þessar myndir veiti mínu gyltubúi góðan vitnisburð. Því væri nú freistandi að gagnrýna kollega mína og fordæma þær ljótu myndir sem birst hafa. Engum dylst að aðbúnaður gyltna sem þar er sýndur er óásættanlegur. Ég ætla hins vegar að spara gífuryrðin. Af hverju? Fyrir því eru nokkrar ástæður. Sú fyrsta er sú að þessar myndir eru teknar fyrir meira en ári síðan og ég trúi því og treysti að MAST hafi í samstarfi við viðkomandi bú komið á úrbótum. Önnur ástæðan er sú að í landinu eru á bilinu 3600-3800 gyltur og ég vil ekki alhæfa út frá 5-10 ljótum myndum. Þriðja ástæðan er sú að ég veit að það má eflaust á ákveðnum tímapunktum koma inn á mitt bú og taka myndir sem líta ekki nægjanlega vel út í kastljósi fjölmiðla. Hér má kannski segja að nálgun mín sé „sá yðar sem syndlaus er kasti fyrsta steininum“. En aðeins nánar að myndunum af mínu búi. Eftir því sem ég best veit eru Ísland og Noregur einu löndin í heiminum sem hafa bannað básahald gyltna í goti. Íslenskir svínabændur hafa aðlögunarfrest til allt að 10 ára til að koma gyltum í lausagöngu, Norðmenn eru langt komnir með þetta hjá sér og raunar öðrum þjóðum til fyrirmyndar. Danir stefna á að 10% af gyltum í goti verði komnar í lausagöngu hjá þeim árið 2020. Norskir svínabændur fá 50% af kostnaði greiddan við breytingarnar í formi styrks. Danskir svínabændur – sem kjósa að fara í þessar breytingar – fá 40% af kostnaði greiddan í formi styrks. Þegar lögin voru sett á Íslandi var g.r.f. að svínabændur fjármagni þennan kostnað alfarið sjálfir.

Ágæti fésbókarvinur, nú stend ég á tímamótum í mínum rekstri, stend frammi fyrir því að fara í fjárfestingar á næstu árum sem kosta væntanlega meira en ársveltan á mínum búum. Mig langar alveg rosalega til að setja undir mig hausinn og fara í þessar fjárfestingar. Segja bara eins og við Íslendingar gerum svo oft „þetta reddast“ Auðvitað dreymir mig – sem bónda – um að fara í bættan aðbúnað þar sem gylturnar geta verið í lausagöngu bæði í geldstöðu og goti. Þannig myndi ég standa samhliða kollegum mínum í Noregi sem eru langt á undan öðrum þjóðum. Það væri svo sannarlega draumurinn. En þá eru ýmsir hlutir sem ég þarf að taka inn í reikninginn. Auknar kröfur á minn rekstur umfram kollega mína í Evrópu hefur það í för með sér að framleiðslukostnaður hjá mér verður enn hærri og samk.staða mín gagnvart innflutningi mun því versna. Skiptir það einhverju máli? Við höfum jú tollverndina. Því miður – fyrir mig – hefur tollverndin með nýjum samningum við ESB verið minnkuð mikið. Þannig hef ég ekki bara áhyggjur af því að tollverndin hafi skerst heldur hef ég jafnvel enn meiri áhyggjur af aðdragandanum. Stjórnvöld unnu þetta – leyfi ég mér að fullyrða – án nokkurs samráðs við okkur svínabændur. Hið pólitíska umhverfi sem við störfum við er því mjög krefjandi og aljörlega ómögulegt fyrir mig að vita hvort né hvenær rekstrargrundvellinum er kippt undan greininni af pólitíkinni. Vonandi mun þessi samningur ekki leiða til þess en rekstraröryggið er a.m.k. ekki mikið til að takast á hendur miklar fjárhagslegar skuldbiningar.

Það sem mér finnst nú sárgrætilegast í þessu öllu saman er að ég hef afar litla trú á því að ávinningur af því að flytja inn ódýrara kjöt frá ESB muni skila sér í vasa neytenda, nema þá í mjög takmörkuðum mæli. Máli mínu til stuðnings bendi ég á að frá því í janúar 2013 til september á þessu ári hefur verð á svínakjöti til okkar bænda lækkað um tæp 9%. Á sama tíma hefur verðið til neytenda hækkað um 4-10%. Formaður okkar svínabænda hefur ítrekað bent á þessar staðreyndir í fjölmiðlum og skorað á verðlagseftirlit ASÍ, Neytendasamtökin og fleiri aðila að kynna sér hvað veldur þessu. Óhætt er að segja að áhuginn hafi verið takmarkaður. Þannig er staðreyndin sú að verðlækkun á umræddu tímabili til svínabænda hefur ekki skilað sér til neytenda, þvert á móti hefur verð til neytenda hækkað á sama tíma.
Að lokum vil ég segja þetta. Þrátt fyrir neikvæða og einhliða umræðu um svínarækt í fjölmiðlum höfum við svínabændur ýmislegt til að vera stoltir af s.s. gríðarlega litla lyfjanotkun í samanburði við kollega okkar erlendis og almennt gott heilnæmi bústofns. Vonandi fáum við tækifæri til að byggja ofan á þetta og tíma til að bæta aðbúnað okkar.

Ingvi Stefánsson Teigi/Pálmholt.