Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar á móti virkjun í Skjálfandafljóti

0
158

Landvernd hefur sent frá sér ályktun þar sem fagnað er ítrekun sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar um að sveitarfélagið sé á móti hugmyndum um virkjun í Skjálfandafljóti eins og fram kom á fundi sveitarstjórnar 16. maí síðastliðinn. Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar tók ákvörðun um að stækka ekki hlut sinn í félaginu Hrafnabjargarvirkjun þegar Orkuveita Reykjavíkur bauð sinn hlut til sölu nýverið. Einnig hafa Þingeyingar óskað eftir því að selja sinn hlut í félaginu. Akureyrivikublad.is segir frá.

Aldeyjarfoss. Mynd: Jón Aðalsteinn Hermansson.
Aldeyjarfoss. Mynd: Jón Aðalsteinn Hermansson.

Í fundargerð sveitarstjórnar Þingeyinga kemur fram að sveitarstjórn sé jákvæð fyrir rannsóknum á svæðinu en á móti hugmyndum um að virkja fljótið. „Það er stefna sveitarfélagsins að nýta vatnsafl í sveitarfélaginu enda sé það til hagsbóta fyrir íbúa þess og í samræmi við sjálfbæra þróun. Þingeyjarsveit telur eftirsóknarvert að kanna frekar framtíðarmöguleika á og kosti þess að byggja fleiri virkjanir til einkanota sem og orkusölu á frjálsum raforkumarkaði, en sveitarfélagið er á móti hugmyndum um að virkja Skjálfandafljót.“

Sveitarfélagið hefur skipulagsvald á svæðinu og því eru einhverjir sem velta því fyrir sér hvort yfirhöfuð verði mögulegt að virkja Skjálfandafljót og undrast í því ljósi auknar fjárfestingar Norðurorku í verkefninu.

„Faghópur I í 2. áfanga rammaáætlunar mat Skjálfandafljót á meðal verðmætustu svæða landsins m.t.t. landslags og víðerna. Virkjanir í ánni, Fljótshnjúksvirkjun og Hrafnabjargavirkjun, myndu þurrka Aldeyjarfoss út sem löngum hefur þótt einn af fallegri fossum landsins með einstakri stuðlabergsumgjörð. Stórum gróðursvæðum á hálendinu yrði að auki sökkt með uppistöðulónum. Í umsögn 13 náttúruverndarsamtaka við drög að tillögu um vernd og orkunýtingu landsvæða (rammaáætlun) lögðu samtökin til að allar virkjanahugmyndir á vatnasviði Skjálfandafljóts yrðu færðar í verndarflokk.“ Þetta kemur fram í ályktun Landverndar.