Sveitarstjórn skorar á ráðherra og þingmenn að bæta slitlag á Bárðardalsvegi

0
232

Í fundargerð 193. fundar sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar frá 8. júní, kemur fram að Bárðardalsvegur vestari sé í mjög slæmu ástandi, þar stendur grjótið í burðalaginu upp úr slitlaginu á köflum.

Bárðardalsvegur.
Bárðardalsvegur.

Þar segir einnig að samkvæmt upplýsingum frá Gunnari Bóassyni verkstjóra Vegagerðarinnar á Húsavík stendur einungis til að hefla og salta þann veg en engin áform munu vera uppi um að bæta efni í slitlagið þar.

 

Sveitarstjórn samþykkti eftirfarandi ályktun vegna slæms ástands Bárðardalsvegar vestari.

 

Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar skorar á innanríkisráðherra, Samgöngunefnd Alþingis og þingmenn Norðausturkjördæmis að sjá til þess að fjármagni verði veitt til þess að bæta slitlag á Bárðardalsvegi vestari nr. 842 hið fyrsta og fyrirbyggja þannig að allur leir hreinsist af veginum með tilheyrandi slysahættu og eignatjóni.

Á næstu vikum er fyrirsjáanlegt að umferð mun stóraukast í Bárðardal með auknum ferðamannastraumi, sérstaklega í kjölfar opnunar Sprengisandsleiðar á næstunni.