Sveitarstjórn samþykkir að starfsemi Þingeyjarskóla verði á Hafralæk

0
89

Á 161. fundi sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar sem haldinn var í gær var samþykkt með fimm atkvæðum A-lista Samstöðu að grunnskólastig Þingeyjarskóla verði sameinað á eina starfsstöð frá og með 1. ágúst 2015. Sú starfsstöð verði í húsnæði Hafralækjarskóla. Starfsemi tónlistardeilda fylgi grunnskólastiginu. Leikskólinn Krílabær verður við þessa breytingu sjálfstæð stofnun. Fulltrúar T-lista Sveitunga greiddu atkvæði gegn tillögunni. Í greinargerð með tillögunni segir eftirfarandi.

Þingeyjarsveit stærra

“Í framboðsstefnu A-lista Samstöðu fyrir síðustu kosningar boðuðum við ákveðið ferli sem við höfum fylgt. Þar sagði að við myndum láta gera úttekt á Þingeyjarskóla. Eina skýrslu um hina faglegu hlið, eina um fjárhagslegu hliðina og eina um rýmis- og viðhaldsþörf starfsstöðvanna. Næsta skref væri að halda fund þar sem skýrsluhöfundar myndu kynna skýrslurnar.  Að lokum yrði kannaður hugur íbúa á skólasvæði Þingeyjarskóla um hvort þeir vildu sameina Þingeyjarskóla á eina starfsstöð og það yrði gert með kosningu sem varð

reyndar að skoðunarkönnun en gerði sama gagn.  Í öllu ferlinu kom skýrt fram að fólki yrði ekki gefinn kostur á að velja um staðsetningu hins sameinaða skóla heldur myndi sveitarstjórn taka þá ákvörðun.

Þetta ferli var skýrt sett fram fyrir kosningar og það væru svik við tæplega 70% íbúa Þingeyjarsveitar sem okkur kusu að gera annað en við boðuðum.

Nú erum við búin að fylgja þessu ferli, haldinn var íbúafundur þar sem skýrsluhöfundar kynntu skýrslurnar og niðurstöður könnunarinnar voru skýrar, 79% prósent á skólasvæði Þingeyjarskóla vildu sameina Þingeyjarskóla á eina starfsstöð.

Ákvörðun okkar var tekin þegar við höfðum sömu upplýsingar og aðrir íbúar upp úr skýrslunum sem og skoðanakönnuninni. Í skýrslu Haraldar Líndals Haraldssonar kemur fram að öll fjárhagsleg rök mæla með því að skólinn verði sameinaður á eina starfsstöð. Ingvar Sigurgeirsson telur í skýrslu sinni að fagleg og þá jafnframt félagsleg rök mæli með því að skólinn verði á einni starfsstöð.  Bjarni Þór Einarsson segir í sinni skýrslu að hægt sé að sameina skólann á eina starfsstöð í húsnæði Hafralækjarskóla með góðu móti með því að kosta til rúmum 16 milljónum króna. Sá kostur er ekki fyrir hendi í húsnæði Litlulaugaskóla, þar þyrfti að byggja við. Meirihluti sveitarstjórnar lítur ekki á viðbyggingu við núverandi húsnæði Litlulaugaskóla sem æskilega og varanlega lausn á húsnæðismálum Þingeyjarskóla.

Framtíðarsýn okkar er að reka tvo góða grunnskóla í sveitarfélaginu þar sem áfram verður unnið gott og metnaðarfullt faglegt- og félagslegt starf fyrir börn og unglinga í sveitarfélaginu.

Sveitarfélagið er fjárhagslega ekki í stakk búið til þess að byggja nýjan skóla á Laugum, enda væri það óábyrg meðferð á opinberu fé þar sem sveitarfélagið á skólahúsnæði sem getur tekið við öllum nemendum og er miðsvæðis á skólasvæði Þingeyjarskóla.  Húsnæði Hafralækjarskóla uppfyllir allar kröfur sem gerðar eru til skólahúsnæðis og er tekið út eins og annað opinbert húsnæði með reglulegum hætti af opinberum eftirlitsaðilum.  Húsnæðið er rúmgott og vel búið, þar sem aðstaða er til að kenna flestar greinar.  Húsnæðið krefst viðhalds, eins og annað húsnæði, en því er hægt að halda innan viðráðanlegra fjárútláta á næstu árum.  Hægt er að nýta húsnæði Ýdala til íþróttakennslu og hátíðarhalda, en auk þess er hægt að nýta íþróttahús og sundlaug á Laugum til kennslu.

Með því að reka Þingeyjarskóla á einni starfsstöð þarf að fækka starfsmönnum. Það er erfið ákvörðun en nauðsynleg til að ná fram hagræðingu í rekstri. Áætlanir gera ráð fyrir hagræðingu upp á 50 milljónir á ári í 3ja ára fjárhagsáætlun sveitarfélagsins, þ.e. fyrir árin 2016 – 2018.  Auk þess að ná fram hagræðingu í rekstri við þessa breytingu er það okkar sannfæring að með þessu móti verði faglegt starf skólans betra og félagslegum þörfum baranna okkar betur borgið.

Leikskólinn Krílabær verður sjálfstæð stofnun þar sem ekki er hægt að greina rekstrarlegan né faglegan ávinning af því að hafa hann sem deild við Þingeyjarskóla vegna fjarlægðar. Það er hins vegar mikilvægt að halda uppi góðu, faglegu og félagslegu samstarfi milli skólanna.

Auglýst verður eftir skólastjóra frá 1. mars 2015, sem mun sjá um að skipuleggja starfsmannahald og móta innra starf skólans. Honum til aðstoðar munum við ráða faglegan ráðgjafa.

Þar sem þessi breyting er stjórnvaldsákvörðun gilda ákvæði stjórnsýslulaga um uppsagnir starfsmanna. Munum við því ekki segja öllum upp eins og við höfðum ráðgert heldur fara eftir meðalhófsreglu stjórnsýslulaga. Þar segir; „Stjórnvald skal því aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að er stefnt, verður ekki náð með öðru og vægara móti. Skal þess þá gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til.“

Það er okkar stefna að gæta hagsmuna starfsmanna sem missa vinnuna. Skipaður verður starfshópur til að vinna að mótvægisaðgerðum vegna þessara breytinga, hann á að skila tillögum til sveitarstjórnar fyrir 1. mars 2015.

Við munum koma á samstarfsnefnd sveitarstjóra, skólastjóra Þingeyjarskóla, skólastjóra Stórutjarnarskóla, og skólameistara Framhaldsskólans á Laugum, til að formgera og efla samstarf skólanna.”

Skoða fundargerðina hér.