Sveitarstjórn mótmælir því að allt vatnasvið Skjálfandafljóts verði flokkað í verndarflokk

0
511

Á 213. fundi sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar sem haldinn var 6. apríl sl. kom m.a. fram að meirihluti sveitarstjórnar hefði samþykkt í tölvupósti eftirfarandi umsögn um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða, sbr. 207. mál, þingskjal 291, á 146. löggjafaþingi.

Umsögnin hefur verið send nefndarsviði Alþingis og þingmönnum kjördæmisins þann 4. apríl s.l.

Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar mótmælir því afdráttarlaust að áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða gerir ráð fyrir að allt vatnasvið Skjálfandafljóts verði flokkað í verndarflokk. Þá eru vinnubrögð Verkefnisstjórnar gagnrýnd, en ekki hefur verið leitað eftir samráði við sveitarstjórn Þingeyjarsveitar við gerð áætlunarinnar, þrátt fyrir að fjallað hafi verið um marga virkjunarkosti innan marka sveitarfélagsins. Þetta er sérstaklega ámælisvert, enda verður verndar- og orkunýtingaráætlun sem samþykkt er af Alþingi bindandi við gerð skipulagsáætlana sveitarfélagsins, sbr. 7. gr. laga nr. 48/2011 um verndar- og orkunýtingaráætlun. Málefnið hefur bein áhrif á verksvið sveitarstjórnar, sem fer með skipulagsvald innan sveitarfélagsins. Samráðsleysi Verkefnisstjórnar er í ósamræmi við eðlileg samskipti ríkis og sveitarfélaga með hliðsjón af sjálfstjórnarrétti sveitarfélaga, sem hvílir á 78. gr. stjórnarskrár.

Í 2. mgr. 10. gr. laga nr. 48/2011 er kveðið á um að Verkefnisstjórn eigi m.a. að leita eftir samráði við stofnanir og stjórnvöld ríkis og sveitarfélaga. Almenn heimild til að senda inn umsagnir getur ekki fallið þar undir, jafnvel þótt Verkefnisstjórnin hafi haldið almenna kynningarfundi þegar drög að tillögu verkefnisstjórnar lágu fyrir vorið 2016 þar sem fullmótaðar tillögur um flokkun virkjunarkosta komu fram.

Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar vísar jafnframt til þeirrar gagnrýni sem komið hefur fram á vinnubrögð Verkefnisstjórnar, m.a. frá Orkustofnun. Bent hefur verið á að hlutverk Verkefnisstjórnar samkvæmt lögum sé að móta stefnu um nýtingu landsvæða sem virkjunarkosti er að finna á, en ekki sé lagagrundvöllur fyrir tillögugerð um vernd alls vatnasviðs Skjálfandafljóts með þeim hætti sem Verkefnastjórn viðhefur.

Jafnframt hefur verið gagnrýnt að framkomin tillaga Verkefnisstjórnar um verndar- og orkunýtingaráætlun, hvílir að afar takmörkuðu leyti á mati á samfélags- og efnahagslegum áhrifum virkjunarkosta, þrátt fyrir lagaskyldu um tillit til þeirra þátta, samanber markmið laga nr. 48/2011 og 4. mgr. 3. gr. laganna. Það er í raun ótrúlegt að Verkefnisstjórn hafi ekki leitað álits sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar á samfélagslegum áhrifum varðandi nýtingu skilgreindra virkjunarsvæða, hvort heldur sem er til virkjunar, annarrar nýtingar eða verndar.

Flokkun einstakra virkjunarkosta hvílir einungis á aðferðafræði Faghópa 1 og 2, þar sem fáeinir einstaklingar hafa fengið vald, bæði til að móta aðferðafræði og setja inn forsendur um vægi einstakra þátta. Það mat er á endanum háð persónulegu mati fárra og í raun ógegnsætt á hverju það hvílir. Röðun virkjunarkosta fór ekki fram hjá faghópum 3 og 4, en faghópur 3 átti að fjalla um samfélagsleg áhrif. Tillaga Verkefnisstjórnar sem hvílir ekki á mati á samfélagslegum þáttum er í raun ólýðræðislegt plagg.

Sveitarstjórn Þingeyjarsveitar gagnrýnir jafnframt að Alþingi hafi ekki sent umsagnarbeiðni á sveitarfélagið. Fyrirliggjandi þingsályktunartillaga gerir ráð fyrir að víðfeðm landsvæði innan sveitarfélagsins falli í verndarflokk, m.a. hluti vatnasviðs Skjálfandafljóts þar sem

verkefnisstjórn hefur ekki haft nokkra virkjunarkosti til umfjöllunar. Sú flokkun á að leiða til verndunar sbr. 6. gr. laga nr. 48/2011 og 53. gr. náttúrverndarlaga nr. 60/2013.  Þingsályktunartillagna hefur bein áhrif á framkvæmd skipulagsvalds Þingeyjarsveitar og verulega hagsmuni íbúa sveitarfélagsins. Óásættanlegt er að Alþingi hyggist ráða slíku máli til lykta án samráðs við Þingeyjarsveit.

Óskað er eftir því að fulltrúar Þingeyjarsveitar fái að mæta á fund umhverfis- og samgöngunefndar til að kynna nánar sjónarmið sveitarstjórnar.

 

Fulltrúar T-listans, þeir Hlynur Snæbjörnsson og Ketill Indriðason sátu hjá við afgreiðslu málsins.

Lesa má fundargerðina hér