Þeim varð líklega ekki meint af erlendu ferðamönnunum sem sváfu í tjaldi sl. nótt í Reykjahlíð í Mývatnssveit, en frostið fór niður í -23 stig í Reykjahlíð í nótt. Einar Jónsson var á leið til vinnu snemma í morgun er hann sá tjald á móts við verslunina Strax í Reykjahlíð og tók meðfylgjandi mynd, en þá var enn 23 stiga frost.

Kolbrún Ívarsdóttir sá til þeirra þar sem þeir voru að taka saman tjaldið þegar hún mætti til vinnu kl. 9:00 í morgun.
Að sögn Kolbrúnar virtust þeir vera eldsprækir og varð þeim því líklega ekki meint af eftir kalda vist í tjaldinu.
Mun kaldara var í Mývatnssveit nóttina áður, en frostið mældist mest um -29 gráður.