Sundlaugin á Laugum lokuð vegna hálku

0
165

Sundlaugin á Laugum verður lokuð frá og með deginum í dag og næstu daga vegna hálku á gólfi í sturtuklefum sundlaugarinnar. Gestir sundlaugarinnar hafa verið að hrasa á gólfinu og slasa sig að undanförnu og í gær þurfti að kalla til sjúkrabíl vegna þess að gestur slasaðist. Á dögunum var lagt nýtt gólf í sturtuklefanna, en svo virðist sem að ekki hafi verið vandað nógu vel til verka með fyrrgreindum afleiðingum.

Sundlaugin á Laugum
Sundlaugin á Laugum

Að sögn Lúðvíks Freys Sæmundssonar forstöðumanns sundlaugarinnar var tekin ákvörðun um að loka sundlauginni í dag og næstu daga til þess að koma í veg fyrir fleiri slys vegna hálkunnar á gólfinu. “Við höfum verið að setja sérstakt efni á gólfið til að draga úr hálkunni en það bara dugar ekki til”, sagði Lúðvík í spjalli við 641.is.

Að sögn Lúðvíks er búið að panta sérstakar mottur til þess að leggja á gólfið og vonaðist hann til að þær yrðu komnar fyrir helgina svo að hægt yrði að opna sundlaugina aftur.

 

Ræktin verður þó áfram opin að sögn Lúðvíks.