Sumri fagnað í Safnahúsinu

0
100

Sýningar opnaðar sumardaginn fyrsta 001

 

Sumardagurinn fyrsti var lengi einn helsti hátíðisdagur Íslendinga, sá sem kom næst jólunum. Eftirfarandi segir Jónas frá Hrafnagili um daginn í Íslenzkum þjóðháttum:

 

 

 

En venja hefur það verið a.m.k. hér nyrðra, að fólk ætti frí þann dag. Þá var vant að lesa, undir eins og komið var á fætur, en síðan var skammtað ríflega af öllu því besta sem búið átti til, hangiket, magálar, sperðlar, pottbrauð, flot, smér og önnur gæði…..Í stað þess að aðrar þjóðir hafa jólagjafir og nýársgjafir, hafa sumargjafirnar einar verið hér þjóðlegar um langan aldur og eru enn í dag.

Dagurinn er upphafsdagur hörpu sem er fyrstur af sumarmánuðunum sex samkvæmt gamla norræna tímatalinu. Samkvæmt þjóðtrúnni er það fyrir góðu sumri ef vetur og sumar frýs saman, þ.e. ef hitastig fer niður fyrir frostmark aðfaranótt sumardagsins fyrsta. Hann gekk einnig undir nafninu yngismeyjadagur, en yngissveinadagur er fyrsti dagur einmánaðar.

Haldið verður upp á þennan forna hátíðisdag í Safnahúsinu á Húsavík. Þar verða opnaðar tvær nýjar sýningar, „Sumar við andapollinn“ og „Ekki snerta jörðina“.

OLYMPUS DIGITAL CAMERA

Sumar við andapollinn“ er sýning unnin af börnum á deildunum Fossi og Vilpu á Grænuvöllum. Sýningin hefur verið í vinnslu hjá þeim í nokkurn tíma, viðfangsefni sýningarinnar er Búðaráin og endurnar þar.Listamennirnir sem eru 1-2 ára byrjuðu vinnuna á því að kynnast viðfangsefninu, gefa öndunum brauð og skoða lífið við ánna. Síðan voru unnin margvísleg listaverk í leikskólanum, endur og tré af ýmsum stærðum og gerðum. Undanfarnar vikur hafa þau komið í Safnahúsið og fært ánna og umhverfi hennar inn í húsið. Það hafa þau gert með því að mála stóra glugga á jarðhæð. Þangað eru endurnar og tréin komin og saman myndar þetta einstakan andapoll innan dyra, svo lifandi að nánast má heyra endurnar kvaka.

OLYMPUS DIGITAL CAMERA

Snertið ekki jörðina – leikir 10 ára barna“ er ein af farandsýningum Þjóðminjasafns Íslands. Haustið 2009 gerðu 8 söfn rannsókn á leikjum 10 ára barna á Íslandi. Rætt var við hátt í 200 börn um leiki og áhugamál þeirra. Niðurstöður rannsóknarinnar má  sjá á þessari farandsýningu en einnig á vef sýningarinnar http://www.thjodminjasafn.is/ekki-snerta-jordina/ . Á sýningunni eru kassar þar sem vinsælustu leikjunum eru gerð skil og einnig má sjá ljósmyndir og myndskeið af börnunum og skólaumhverfinu. Kraftur, og fjölbreytni einkenna leikina, en fótboltinn var þó alls staðar mjög vinsæll.

 

Þessar sýningar eru báðar á jarðhæð, í sýningarrými framan við bókasafn. Sýningin „Snertið ekki jörðina – leikir 10 ára barna“ stendur til ágústloka, en síðasti sýningardagur„Sumar við andapollinn“ verður 9. maí, þá verður sýningin færð yfir á Grænuvelli og verður hluti af vorsýningunni þar. Nemendur frá Tónlistarskóla Norðurþings flytja tónlistaratriði á opnuninni.

Sumardagurinn fyrsti er síðasti sýningardagur myndlistarsýningar Kára Sigurðssonar„Sjáið húsin, þau eru horfin“.

Nýju sýningarnar verða opnaðar klukkan eitt, húsið verður opið frá kl. 13-16, en sýning Kára er opin til kl. 18. Að venju er frítt inn á allar sérsýningar, en í tilefni dagsins verður einnig frítt inn á fastasýningarnar, Mannlíf og náttúra – 100 ár í Þingeyjarsýslum og Sjóminjasafn.  husmus.is