Styttist í tökur á Game of Thrones

0
102

Tökulið Game of Thrones þáttaraðarinnar er þessa daganna að undirbúa tökur í Mývatnssveit. Rúmlega 2o manns úr Mývatnssveit og Reykjadal hafa verið ráðin sem aukaleikarar vegna þáttanna og samkvæmt heimildum 641.is, hefjast tökur um eða upp úr næstu helgi. Hluti af síðustu þáttaröð var tekin upp á suðurlandi sl. vetur en framleiðendur þáttanna ákváðu að taka upp í Mývatnssveit núna, enda væri meiri líkur á snjó þar en fyrir sunnan. Þeim varð að ósk sinni.

Base Camp.
Mynd: Sigurbjörn Ásmundsson

 

Breski leikarinn Kit Harington, sem fer með hlutverk Jon Snow í þáttunum, verður því í Mývatnssveit næstu daganna ásamt mörgum öðrum leikurum, sem áhorfendur stöðvar 2 ættu að kannast við. Hátt í 200 manns koma að tökunum og er fyrirtækið Pegasus þeim til aðstoðar innanlands.

 

Þetta er þriðja þáttaröðin af Game of Thrones sem sjónvarpsstöðin HBO í Bandaríkjunum framleiðir og hafa þeir notið mikilla vinsælda um allan heim. Tökur á þriðju þáttaröðinni hófust í júlí sl. og er áætlað að fyrsti þátturinn verði sýndur í sjónvarpi í Bandaríkjunum 31. mars 2013. Þættirnir hafa verði sýndir á stöð 2. Auk Íslands eru tökustaðir í Marokkó, Króatíu og á Norður-Írlandi.