Styttist í ljósleiðaraútboð í Þingeyjarsveit – Ljósnet tengt á Laugum 2017

0
215

Á sveitarstjórnarfundi sem haldinn verður á morgun fimmtudag verða útboðsgögn vegna ljósleiðaravæðingu Þingeyjarsveitar lögð fram og gera má ráð fyrir að þau fari svo í formlegt útboð í kjölfarið. Samkvæmt heimildum 641.is mun Míla koma á ljósnettenginu á markaðslegum forsendum í þéttbýlinu á Laugum á árinu 2017. Einnig munu íbúar í húsum næst símstöðinni á Breiðumýri eiga kost á ljósnettengingu á sömu forsendum. Markaðslegar forsendur munu ekki eiga við á öðrum stöðum í Þingeyjarsveit.

Laugahverfið. Smella á til að skoða stærri mynd
Laugahverfið. Smella á til að skoða stærri mynd

Yfirlitskortið hér til hliðar sýnir hvaða heimili eiga kost á því að fá ljósnet á Laugum. Míla mun setja upp ljósveituskáp rétt við íþróttahúsið sem dekkar svæðið innan bláa rammans. Drægni ljósveitunnar er í eins kílómetra radíus frá ljósveituskápnum. Ekki þarf að leggja sérstakan ljósleiðara innan þessa svæðis þar sem ljósveitan notar núverandi símalínur.

Á hinni myndinni eru sýnd heimili innan rauða rammans sem geta fengið ljósveitusamband beint frá símstöðinni á Breiðumýri.

 

Heimili í nágrenni símstöðvarinnar á Breiðumýri
Heimili í nágrenni símstöðvarinnar á Breiðumýri

Samkvæmt heimildum 641.is munu hús við Þingeyjarskóla og við Stórutjarnaskóla, sem og öll önnur hús/heimili í Þingeyjarsveit, ekki eiga kost á ljósneti og þurfa því að fá ljósleiðara lagðan heim til sín.

Til stendur að halda íbúafundi í Þingeyjarsveit til þess að kynna áform um ljósleiðaravæðingu, en 641.is er ekki kunnugt um hvenær þeir verða haldnir. Líklegt er þó að þeir verði í mars eða í apríl.

Líklegt er talið að hægt verði að hefja lagningu á ljósleiðara á vissum svæðum í Þingeyjarsveit í sumar, en óvíst er hvar verður byrjað. Hugsanlega verður lagt á fleiri en einum stað í einu, en ekki hefur verið tekin ákvörðun um það. Ekki er vitað á þessu stigi hvenær ljósleiðaravæðingu Þingeyjarsveitar líkur.

Smella á myndir til að skoða þær í stærri upplausn.