Stórutunguvirkjun prufukeyrð

0
388

Endurnýjun vatnsaflsvirkjunar í Stórutungulæk við Stórutungu í Bárðardal er nú á lokastigi en Stórutunguvirkjun var prufugangsett sl. föstudag. Prufugangsetningin gekk að óskum að sögn Páls Kjartanssonar bónda í Víðikeri. Það eru ábúendur í Víðikeri, Páll Kjartansson og Sigríður Baldursdóttir sem standa í virkjunarframkvæmdunum auk Stórutungusystkina, sem eru eigendur sumarbústaða sem standa í landi Stórutungu. Stórutunguvirkjun er næst stærst heimarafstöðva í Bárðardal, en heimarafstöðin á Halldórsstöðum/Engi er 90-100 KW að stærð.

IMG_0635
Þeir feðgar Páll Kjartansson og Tryggvi Pálsson frá Víðikeri. Mynd: Ingólfur Pétursson.

 

Tvær gamlar og litlar heimarafstöðvar eru fyrir í Stórutungulæk, en þær eru komar til ára sinna og verða nú aflagðar. Nýja virkjunin á að skila 60-80 KW af rafmagni, sem fullnægir orkuþörfinni fyrir sumarbústaðina við Stórutungu, Stórutungubæinn sjálfan og allri rafmagnsnotkun í Víðikeri og gott betur. Virkjunin sem er í Svartá, skammt frá Stórutungu er líka komin til ára sinna og verður hún aflögð þegar nýja virkjunin verður tekin formlega í notkun. Búið er að leggja jarðstreng frá nýju virkjuninni í Stórutunglæk að sumarbústöðunum og Stórutungbænum en eftir er að leggja jarðstrenginn heim í Víðiker.

IMG_0629
Eiður Jónsson Árteigi að tengja. Mynd: Ingólfur Pétursson.

 

Stórutungulækur er mjög góður virkjunarkostur. Hann kemur undan hraunjaðri Ódáðahrauns og er vatnsmagnið mjög stöðugt og ávallt með sama hitastigi. Úrkoma og vorleysingar, með tilheyrandi gruggi, hafa því engin áhrif á Stótutunglæk.

Ekki þurfti að gera miklar breytingar á inntaki virkjunarinnar, en nýtt stöðvarhús var byggt fyrir neðan gömlu fjárhúsin í Stórutungu. Fallhæðin er 25 metrar og inntaksrörin eru um 290 metrar á lengd og 500 mm í þvermál úr sérstöku fíber-plasti. Eins og áður segir á virkjunin að skila 60 KW hið minnsta. Túrbínan var að sjálfsögðu smíðuð hjá snillingunum í Árteigi í Kinn.

 

Stöðvarhúsið í Stórutungu. Mynd: Ingólfur Pétursson
Stöðvarhúsið í Stórutungu. Mynd: Ingólfur Pétursson