Stórutjarnaskóli – Vinsamleg tilmæli um að hafa símana heima

0
773

Í Stórutjarnaskóla hefur verið ákveðið að mælast til þess, nú í upphafi skólaársins að nemendur komi ekki í skólann með snjallsíma fyrsta mánuðinn. Vonast er til að það geti haft margvísleg jákvæð áhrif á félagsleg tengsl, virkni og líðan nemenda. Fyrir þessu liggja nokkur rök sem vert er fyrir hvern og einn að hugleiða. Með þessu ætti að aukast svigrúm til félagslegra samskipta í frímínútum og skólabíl þar sem margir hverfa inn í sýndarveruleika í stað þess að leika sér eða spjalla saman.

Á heimasíðu Stórutjarnaskóla segir: Ýmsar rannsóknir á notkun snjalltækja gefa vísbendingar um breytingu á líðan og hegðun unglinga sem veldur áhyggjum m.a. hjá sálfræðingum og kennurum. Áhyggjurnar beinast m.a. að þeim tökum sem tækið/öppin virðast ná á börnunum. Allt of hátt hlutfall barna er farið að verja mörgum klukkutímum á dag við tölvu/snjalltæki, bæði í skóla og frístundum. Auðvitað eru þau stundum að nota tækin sér til gagns og í félagslegum tilgangi. En fæst börn og unglingar hafa þroska eða getu til að takmarka sjálf notkun sína á snjalltækjum og þau gera sér heldur ekki grein fyrir mikilvægi annarra þátta fyrir þroska sinn. Sá tími sem við erum “inni” í tækjunum þýðir að á meðan erum við fjarverandi úr öðru sem er okkur bráðnauðsynlegt til að þroskast eðlilega. Við tökum þennan tíma t.d. frá innihaldsríkum samræðum, lestri bóka, hreyfingu og samveru og missum þar með af nauðsynlegri örvun sem við þurfum á að halda. Og börn á viðkvæmu þroskakeiði fá ekki þann tíma til baka til að læra ýmsa hæfni, t.a.m. málþroska, tilfinningagreind og félagsþroska.

Við fáum sömu skilaboð hvað varðar stöðu íslenskunnar. Um þessar mundir er stór íslensk rannsókn í gangi þar sem vísbendingar eru uppi um alvarlega hnignun móðurmálsins í samfélaginu. Þar snúast áhyggjurnar ekki bara um stöðu tungumálsins heldur líka okkur sem notum það. Venjulegur Íslendingur á að geta talað móðurmál sitt reiprennandi, án þess að skorta orð. Hann á að geta tjáð tilfinningar sínar og átt í innihaldsríkum samræðum án þess að þurfa að grípa til enskra orða. Ensk orðanotkun og ensk setningaskipan sækja hins vegar hratt inn í málið um þessar mundir í föstum takti við aukna notkun hinna svo kölluðu “snjalltækja”.

Í Stórutjarnaskóla langar okkur að spyrna við fótum, við viljum standa með móðurmálinu okkar og við viljum standa með þjóðinni. Við biðjum þig lesandi góður að ígrunda þessi mál vel og velta því fyrir þér hvort þú vilt ekki ganga til liðs við okkur í þessari baráttu. Helst af öllu viljum við að nemendur okkar verði meðvitaðir um kosti og galla snjalltækja. Við getum vissulega nýtt tæknina til frábærra verkefna og þekkingaröflunar, en hún getur líka verið skaðleg sé hún ekki notuð á réttan hátt.