Stórutjarnaskóli fær Grænfánann í annað sinn.

0
87

Þegar Stórutjarnaskóla var slitið þann 3. júní s.l. fékk skólinn  Grænfánann afhentan í annað sinn. Grænfáninn er alltaf veittur til tveggja ára í senn. Til að halda Grænfánanum þarf skólinn að uppfylla viss skilyrði m.a. að skrifa greinagerð um það starf sem unnið hefur verið í skólanum þau tvö ár sem liðin eru frá því að skólinn fékk Grænfána. Þá koma fulltrúar frá Landvernd í skólann og skoða það starf sem hefur verið unnið. Skólar velja sér þema til að vinna með og í vetur var unnið með lýðheilsu og moltugerð. Í lýðheilsu þemanu var unnin fæðukönnun bæði meðal nemenda og foreldra. Í vetur hefur verið unnið að moltugerð, fengin var moltutunna og flokkun á matarafgöngum orðin fjölbreyttari því ákveðið var að einungis ávaxta og grænmetisafskurður færi í moltuna ásamt grófara efni. Nemendur hafa skipst á að tæma afskurðinn í moltutunnuna, og gera það mjög samviskusamlega.  Á síðasta skólári fékk skólinn hirslu undir ónýtar rafhlöður, vann að geðrækt og aukinni flokkkun. Skólar velja sér “þema” til að vinna með og geta valið eftirfarandi:

  • Vatn
  • Orka
  • Úrgangur (rusl)
  • Átthagar
  • Samgöngur
  • Lýðheilsa
  • Loftslagsbreytingar
  • Lífbreytileiki
  • Staðardagskrá 21

Hugrún Sigmundsdóttir fullrúi Landverndar afhenti Grænfánann og fór fögrum orðum um metnaðarfull starf skólans og talaði sérstaklega um umhverfisþingin sem haldin hafa verið þrívegis Hugrún sagði að Stórutjarnaskóli væri eini skólinn á landinu með þessi þing, en þingin þykja mjög til eftirbreyttni. Hugrún sagðist hafa verið svo heppin að komast á tvö umhverfisþing og í vetur fengið að hlusta á Pál Jakob Líndal umhverfissálfræðing, sem hún sagði að væri alveg á heimsmælikvarða.

Sigrún Jónsdóttir tekur við grænfánanum frá Hugrúnu Sigmundsdóttur.
Sigrún Jónsdóttir tekur við grænfánanum frá Hugrúnu Sigmundsdóttur.