Stórutjarnaskóla slitið

0
107

Þriðjudagskvöldið 3. júní var Stórutjarnaskóla slitið við hátíðlega athöfn í sal skólans. Að þessu sinni útskrifuðust fjóri nemendur úr 10. bekk og tveir úr leikskóla. Kvenfélagskonur afhentu útskriftarnemum „praktískar“ gjafir að venju og Sandra Sif Agnarsdóttir hlaut viðurkenningu danska sendiráðsins fyrir bestan árangur í dönsku. Tveir nemendur luku grunnprófi í hljóðfæraleik, þær Bjargey Ingólfsdóttir á fiðlu og Sandra Sif Agnarsdóttir á píanó. Nemendur 10. bekkjar færðu Þórhalli Bragasyni umsjónarkennara sínum þakkir í formi forláta reiknivélar og nemendur 7.-9. bekkjar þökkuðu þeim Ingu og Jónasi fyrir þeirra þátt í samstarfsverkefni Stórutjarnaskóla og Søvind Skole en þau eru einmitt nýkomin úr vikulangri Danmerkurferð. Frá þessu segir á vef Stórutjarnaskóla.

skólaslit

Einn starfsmaður skólans lætur nú af störfum, en það er Ásta Hersteinsdóttir sem hefur starfað í leikskóladeildinni í Bárðargili sem nú hefur verið lokað. Guðrún Tryggvadóttir færði þeim Ástu og Maríu Sigurðardóttur þakkir foreldra fyrir störf þeirra í Bárðargili. Einnig má nefna að Kristján Jóhannesson, reikningshaldari skólans til fjölda ára og fjármálastjóri Þingeyjarsveitar, lét af störfum nú í vor, en það má segja að Kristján hafi þjónað Stórutjarnaskóla allt frá því skólinn var byggður. Við þökkum þeim Kristjáni og Ástu kærlega fyrir samstarfið.

Ólafur Arngrímsson skólastjóri fjallaði í ræðu sinni m.a. um mikilvægi þess að leggja sig fram og reyna ætíð að skila af sér góðu og vel unnu verki. Það má jú alltaf gera betur.

Þegar nemendur höfðu fengið afhentar einkunnir sínar gátu gestir að venju skoðað sýningu á fjölbreyttu handverki nemenda og að lokum var öllum boðið upp á ís og ávexti í matsal skólans. Myndir hér.