Stórmót ÍR – Fínn árangur hjá HSÞ

0
272

Núna um helgina fór fram stórmót ÍR í frjálsum íþróttum í Reykjavík.  HSÞ átti 10 keppendur alls á mótinu. 8 keppendur, 2 fararstjórar og þjálfari fóru af stað frá Birkimel í Þingeyjarsveit sl. föstudag en Helen og Brói lánuðu bíl til ferðarinnar og þökkum við þeim kærlega fyrir. Tveir keppendur fóru á eigin vegum á mótið. Hópurinn var mjög samhentur og stóð sig með sóma bæði utan vallar sem innan í allri ferðinni.

Natalía og Ari. Mynd: Ingólfur Víðir.
Natalía og Ari. Mynd: Ingólfur Víðir.

ÍR mótið er fyrir  einstaklinga 11 ára og eldri.  Tveir 11 ára  keppendur frá HSÞ voru þarna að stíga sín fyrstu skref á móti utan héraðs og gerðu þau sér lítið fyrir og nældu sér í sinn hvorn verðlaunapeninginn. Það voru þau Natalía Sól Jóhannsdóttir sem náði bronsi í 60m hlaupi og Ari Ingólfsson náði einnig bronsi í hástökki. Þá fékk Hlynur Aðalsteinsson silfurpening í 1500m hlaupi.  Aðrir keppendur HSÞ stóðu sig með sóma og mörg hver ef ekki flest, bættu sinn persónulega árangur.  Ekki það að verðlaunapeningar skipti öllu máli heldur er þessi árangur frábær þar sem þau æfa oftast nær ekki nema 1x í viku á meðan jafnaldrar þeirra æfa við bestu aðstæður 3x í viku eða oftar. Þetta sýnir að þrátt fyrir mikinn aðstöðumun eiga þau fullt erindi á svona mót  sem gefur þeim einnig hvatningu til að halda áfram að æfa.  Jón Friðrik  (Brói) þjálfarinn  okkar á líka stóran þátt í þessari velgengni.

Við teljum það líka gefa krökkunum mikið að vera þarna innan um og sjá helstu frjálsíþróttastjörnur landsins keppa, t.d. höfðu þau gaman af að hvetja Anítu áfram þegar hún setti Íslandsmetið í 1500 m. hlaupinu.

Eftir hálfan mánuð þ.e. helgina 7. – 9. Febrúar verður MÍ 11-14 ára haldið í Laugardalshöll. Við hvetjum alla á þessum aldri sem eru að æfa til að koma með og taka þátt.

Að lokum minnum við á að frjálsíþróttadagatal HSÞ er í dreifingu þessa dagana. Þetta er okkar aðal fjáröflun.  Við vonum að sem flestir sjái sér fært að styrkja krakkana með því að greiða gíróseðilinn sem fylgir því.

f.h. frjálsíþróttaráðs HSÞ, Víðir og Hulda Úlfsbæ.