Stofutónleikar á Stöng

0
362

Ásmundur og Svala gestgjafar á Stöng í Mývatnssveit sendu sveitungum sínum kveðju með Mýflugunni og buðu til fiðlutónleika í veitingasalnum á gistiheimilinu á Stöng að kvöldi 2. maí. Þar gaf á að hlíða fiðludúettinn “Duo Landon” sem þau skipa Hlíf Sigurjónsdóttir og Martin Frewer. Á efnisskránni var fiðlutónlist eftir Elías Davíðsson, Þorkel Sigurbjörnsson, Hildigunni Rúnarsdóttur Béla Bartók, Sergei Prokofief, Johannes Brahms, að ógleymdum”Þingeysku fiðlulögunum” sem Páll H Jónsson skráði á sínum tíma. Martin Frewer hefur nú útsett þau mjög skemmtilega fyrir tvær fiðlur og var þetta frumflutningur.

Fiðludúettinn "Duo Landon". Martin Frewer og Hlíf Sigurjónsdóttir. Mynd: Birkir Fanndal.
Fiðludúettinn “Duo Landon”. Martin Frewer og Hlíf Sigurjónsdóttir. Mynd: Birkir Fanndal.

Hlíf Sigurjónsdóttir hefur á undanförnum misserum lagt sig fram um að varpa ljósi á þá sérstöku fiðlumennningu sem þróaðist í Þingeyjarsýslu frá miðri nítjándu öld fram yfir miðja þá tuttugustu. Minna má á í því sambandi tónleikaröð hennar frá haustinu 2012 fram á vor 2013 í kirkjum héraðsins. Nú hefur hún fengið til liðs við sig Martin Frewer, sem er snjall fiðluleikari og útsetjari.

Samvinna þeirra hefur tekist afar vel og var hrein unun á að hlíða þegar þau fluttu þá gömlu tónlist sem Páll H Jónsson skráði og Martin hefur náð að klæða í mjög áhugaverðan og líflegan búning fyrir dúetinn. Svipað má segja um annan fluttning þeirra t.d. “Fiðlufrænkur” – útsetningar Þorkels Sigurbjörnssonar á íslenskum þjóðlögum. Aldeilis magnaður flutningur.

 

 

Ásmundur Kristjánsson, rifjaði upp bernskuminningu frá þeim tíma þegar á Stöng átti heimili einn hinn síðasti þessara þingeysku fiðluleikara, Hermann Benediktsson frá Stórási. Hermann átti grammófón og keypti hljómplötur með sígildri tónlist, söngvurum og fiðlusnillingum. Þessa tónlist lék hann fyrir heimilisfólki á Stöng á góðum stundum. Þær stundir hafa orðið Ásmundi minnisstæðar og taldi hann þær hafa verið þroskandi fyrir sig. Á þessu ári eru 100 ár frá fæðingu Hermanns Benediktssonar. Meðal tónleikagesta á Stöng var Elín Baldvinsdóttir í Svartárkoti, en hún þekkti Hermann Benediktsson frá því þegar hann átti heima í Svartárkoti. Við lok tónleikanna færði Elín listafólkinu og gestgjöfum á Stöng blómvendi í þakklætisskyni.

Aðalsteinn Davíðsson, Selma Ásmundsdóttir, Svala Gísladóttir, Elín Baldvinsdóttir, Ásmundur Kristjánsson, Hlíf Sigurjónsd og Martin Frewer. Mynd: Birkir Fanndal.
Aðalsteinn Davíðsson, Selma Ásmundsdóttir, Svala Gísladóttir, Elín Baldvinsdóttir, Ásmundur Kristjánsson, Hlíf Sigurjónsd og Martin Frewer. Mynd: Birkir Fanndal.

Þau ágætu Stangarhjón, Svala Gísladóttir og Ásmundur Kristjánsson hafa lengi rekið rausnarbú, með kúm, kindum og silungseldi við jarðhita, auk ferðaþjónustunnar og aldrei slegið slöku við. Þeim skal þakkað hér fyrir að sína horfinni fiðlumenningu Þingeyinga ræktarsemi með svo myndarlegum hætti sem raun ber vitni.
Á síðasta ári handsöluðu þau rekstur gistiheimilisins til dóttur sinnar Selmu og manns hennnar Aðalsteins Dagssonar.

Dagskrá tónleikanna stóð í rúma klukkustund og eftirá fylgdu fjölmörg aukalög, enda mikil stemmning á Stöng. Eftir á sátu gestir góða stund á spjalli yfir kaffi og kökum meðan síðustu geislar vorsólar hurfu af þingeysku heiðalöndunum sem enn eru sem jökull yfir að líta.

BF.