Nú líður að stofnfundi MýSköpunar, sem er félag sem komið hefur verið á laggirnar að frumkvæði sveitarsjórnar Skútustaðahrepps. Fulltrúar frá sveitarfélaginu, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Háskólanum á Akureyri og Matís hafa unnið að undirbúningi MýSköpunar.
Kynningarfundur var haldinn í júní s.l. hann var vel sóttur og þar voru líflegar umræður.
Stofnfundur verður haldinn í Reykjahlíðarskóla, 12. september n.k. kl.16.
Markmið MýSköpunar er að stuðla að nýtingu afgangsvarma og rannsaka leiðir til að nýta auðlindir okkar án þess að valda spjöllum á náttúrunni. Allt í kring um okkur eru tækifæri, sum leynast í því sem við sjáum ekki með berum augum t.d. örverum og þörungum. Einnig er möguleg tínsla og nýting jurta, berja, grasa og fræja fyrir utan fjölmarga ræktunarmöguleika.
Vinna og kynningar í þörungarækt eru lengst komnar og hafinn er undirbúningur að stofnun þörungabús. Fleira er til skoðunar og margar frumlegar og spennandi hugmyndir eru ræddar.
Fyrsta verkefni MýSköpunar á sviði þörungaræktunar er að ganga frá ítarlegri starfs-, rannsóknar-, viðskipta- og rekstraráætlun sem byggir á sex megin stoðum:
a. Ræktun smáþörunga
b. Skimun eftir þörungum í Mývatni til ræktunar
c. Framleiðslu á skilgreindum íblöndunarefnum
d. Framleiðslu á neytendavörum.
e. Þjónustu vegna rannsókna og sérfræðivinnu.
f. Fræðslu og kynningu fyrir ferðamenn
Þórhallur Geir Arngrímsson verkfræðingur hefur verið ráðinn til félagsins og mun hann hefja störf í lok október.
Eftirfarandi aðilar hafa staðfest áform sín um þátttöku í félaginu: Skútustaðahreppur, Nýsköpunarmiðstöð Íslands, Háskólinn á Akureyri, Landsvirkjun, landeigendafélag Reykjahlíðar, landeigendafélag Voga og Orkuveita Húsavíkur. Fleiri hafa lýst áhuga á þátttöku og vænst er góðrar samvinnu við fyrirtæki og íbúa svæðisins og vonast eftir þátttöku þeirra.
Þeim sem hafa áhuga á að fá frekari upplýsingar eða vilja gerast stofnaðilar er bent á að hafa senda póst á dagbjort@myv.is
Þeir sem staðfesta þátttöku fyrir 31. ágúst n.k. eru stofnfélagar.