Stjórnendur OR sóttu um rannsóknarleyfi án vitundar eigenda

0
128
Umsókn Orkuveitu Reykjavíkur um rannsóknarleyfi vegna Hrafnabjargarvirkjunar í Skjálfandafljóti kom aldrei inn á borð stjórnar eða eigenda Orkuveitunnar en það brýtur í bága við samþykktir um eigendastefnu fyrirtækisins að ákveða að fara inn á óröskuð svæði án samþykkis eigenda. Frá þessu er sagt á Smugan.is í dag.
Fyrirhuguð virkjun er 90 megavatta virkjun við Aldeyjarfoss í Skjálfandafljóti. Orkuveitan sótti öllum á óvörum um rannsóknarleyfi vegna hennar þann tólfta júlí en virkjunin lendir í biðflokki samkvæmt drögum að rammaáætlun. Forsaga málsins er sú að OR hafði sótt um rannsóknarleyfi fyrir rúmum átta árum. Þann fimmtánda febrúar barst hinsvegar bréf frá Orkustofnun þar sem kom fram að  fyrri umsókn um rannsóknarleyfi væri fallin úr gildi vegna tómlætis. Gengið var þá  í að endurnýja umsóknina án samráðs við eigendur en eigendastefnan var samþykkt 19. júní

Orkuveitan á meirihluta í félaginu Hrafnabjargarvirkjun en fyrirtækið er í eigu, OR, Norðurorku, Orkuveitu Húsavíkur og Atvinnueflingar Þingeyinga. Áætlað er að stífla fljótið við Hrafnabjörg, leiða vatnið síðan í sex kílómetra göngum í stöðvarhús neðan við Aldeyjarfoss en við þetta yrði til 27 ferkílómetra miðlunarlón.

Sóley Tómasdóttir sem situr í stjórn OR, gagnrýndi vinnubrögðin harðlega í bókun á stjórnarfundi í gær. Hún segir umsóknina sjálfa óðs manns æði þegar litið sé til virkjana og skuldbindinga sem Orkuveitan hafi þegar tekist á hendur. Þá sé miklu til fórnað á áhrifasvæði virkjunarinnar. Hagsmunir borgarbúa krefjist þess að það verði látið staðar numið.

Það virðist vera nokkur áhugi á því að virkja Skjálfandafljót því á fundi sveitarstjórnar Þingeyjarsveitar þann 21 júní sl, var lagt fram erindi frá Orkustofnun um beiðni um umsögn vegna umsóknar Landsvirkjunar um rannsóknarleyfi vegna áætlana um virkjanir í efri hluta Skjálfandafljóts.
Eftirfarandi bókun var samþykkt með fimm atkvæðum gegn tveimur:
Sveitarstjórn gerir ekki athugasemdir við umsókn Landsvirkjunar um rannsóknarleyfi en leggur áherslu á eftirfarandi stefnumótun sveitarfélagsins sem sett er fram í aðalskipulagi Þingeyjarsveitar 2010-2022, í kaflanum Framtíðarsýn og meginmarkmið.
“Það er stefna sveitarfélagsins að nýta vatnsafl í sveitarfélaginu enda sé það til hagsbóta fyrir íbúa þess og í samræmi við sjálfbæra þróun. Þingeyjarsveit telur eftirsóknarvert að kanna frekar framtíðarmöguleika á og kosti þess að byggja fleiri virkjanir til einkanota sem og orkusölu á frjálsum raforkumarkaði, en sveitarfélagið er á móti hugmyndum um að virkja Skjálfandafljót.”