Stjórn LS skoðaði aðstæður hjá bændum

0
174

Stjórn og framkvæmdastjóri Landssamtaka sauðfjárbænda (LS) fóru um helgina um nokkur kalsvæði á Norður- og Austurlandi.  Tjónið hefur verið að koma í ljós síðusta daga og vikur eftir að loks fór að hlána eftir langan vetur.  Frá þessu er sagt á vefnum saudfe.is

Illa kalið tún í Fnjóskadal. Mynd:Ssigurður Eyþórsson
Illa kalið tún í Fnjóskadal. Mynd:Ssigurður Eyþórsson

Ekið var frá Akureyri um Öxnadal og út Skagafjörð inn í Fljót þar sem komið var að Þrasastöðum og Molastöðum. Talsvert er um kaltjón í Skagafirði, ekki síst í Hjaltadal.  Í Fljótum er fé víðast hvar enn á innistöðu því beit er enn lítil.  Ekki eru heldur öll tún komin upp úr snjónum eða eru nýkomin undan, en bændur bjuggust ekki við kaltjóni að ráði, enda voru tún ekki svelluð þrátt fyrir mikil snjóþyngsli.

Þverá. Mynd: Sigurður Eyþórsson.
Þverá. Mynd: Sigurður Eyþórsson.

Farið var næst um Héðisfjarðargöng, inn Eyjafjörð að Grýtubakka við Eyjafjörð þar sem formaður LS býr og þaðan að Þverá í Dalsmynni.  Því næst að Stafni í Reykjadal og loks að Brekku í Aðaldal þar sem stjórnin fundaði og gisti.  Morguninn eftir var farið að Klambraseli í Aðaldal.  Mikið kaltjón er í Fnjóska- og Aðaldal, en minna í Reykjadal þar sem farið var um.

Snorri Kristjánsson tók vel á móti stjórninni. Mynd: Sigurður Eyþórsson
Snorri Kristjánsson tók vel á móti stjórninni. Mynd: Sigurður Eyþórsson

Á sunnudeginum var haldið austur á land.  Farið var að Hákonarstöðum á Jökuldal og þar hittum við einnig bændur frá Klausturseli og Skjöldólfsstöðum.  Einnig var farið inn Jökuldalinn, allt inn að Aðalbóli í Hrafnkelsdal. Því næst var haldið niður dalinn og komið við í Hofteigi.  Mjög verulegt tjón er á Jökuldal.  Viðtækt og alvarlegt tjón er einnig út um allt Hérað þar sem farið var um s.s. í Hróarstungu, Hjaltastaðaþinghá og Eiðaþinghá.  Endurræktun er víða hafin eftir hlýindi síðustu daga og bændur eru einnig að leita annarra leiða við fóðuröflun, þar sem það er fært, en ljóst er að útgjöld vegna þessa verða veruleg.

Mikilu skiptir að sumarið verði gott svo hægt sé að afla nægilegs fóðurs fyrir næsta vetur, en fyrningar eru víða í algeru lágmarki eftir langan vetur.

Ráðunautar ráðgjafamiðstöðvar landbúnaðarins (RML) eru nú að meta tjónið með heimsóknum á einstaka bæi.  Þeirri vinnu er ekki lokið og ekki búið að taka saman hvað það er mikið í heild.

Hér má skoða nokkrar myndir úr ferðinni.