Stefnumál H-listans í Skútustaðahreppi

0
144

Stefnuskrá H-listans sem býður fram í Skútustaðahreppi fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 31. maí nk, hefur verið gefin út. Í henni segir eftirfarandi: H-listinn samanstendur af fólki sem hefur einlæga trú á tækifærum og bjartri framtíð  Mývatnssveitar.

Skjaldarmerki_Skutustadahrepps

 

Við viljum stuðla að samvinnu og virkri þátttöku íbúa með því að skapa jákvæða umræðu og kraft til framkvæmda og öflugra félagslífs.Við viljum jafnframt vinna að framgangi mála með virku samtali við fyrirtæki, stofnanir og landeigendur.

 

 

Á stefnuskrá H-listans bera eftirtalin málefni hæst:

Atvinnumál
Ýta undir fjölbreyttara atvinnulíf og styðja við frumkvöðlastarf og framkvæmdir. Marka framtíðarstefnu í ferðamálum og skipulagi á ferðamannastöðum. Koma á fót þekkingar/fræða og uppbyggingarmiðstöð með vinnuaðstöðu fyrir stofnanir, fyrirtæki og námsaðstöðu fyrir fjarnema. Vega og meta virkjanakosti út frá bestu fáanlegu upplýsingum með tilliti til áhrifa á náttúru og mannlíf. Stuðla að fullvinnslu landbúnaðarafurða.

Húsnæðismál
Hefja uppbyggingu nýrrar götu í Reykjahlíðarþorpi með undirbúningi lóða og byggingu húsnæðis ásamt því að undirbúa lóðir fyrir atvinnustarfsemi. Samhliða því að hvetja til og aðstoða við að koma á fót nýbyggingum í Mývatnssveit.

Fráveitu- og sorpmál
Sveitarfélagið taki frumkvæði í fráveitumálum og leiti leiða til að leysa þau mál skipulega í heild sinni, með það fyrir augum að frárennslismál verði til fyrirmyndar í Skútustaðahreppi. Komið verði á flokkunar- og úrvinnsluferli fyrir sorp. Ljúka við gerð umhverfisstefnu.

Málefni eldri Mývetninga
Kannað verði í samráði við Heilbrigðisstofnunina og Hvamm hvort ákjósanlegt sé að byggja þjónustuíbúðir fyrir aldraða í tengslum við fyrirhugaða heilsugæslu. Stuðla að frekara samstarfi skólastofnana og eldri Mývetninga, til gagns og gamans, t.d. sögustundir og tónlist.

Samgöngumál
Vinna með Vegagerð, landeigendum, Umhverfisstofnun og öðrum hagsmunaaðilum að uppbyggingu göngu- og hjólreiðastíga sem og reiðvega. Vinna með Vegagerð og landeigendum að gerð útskota umhverfis Mývatn.
Stuðla að traustum almenningssamgöngum og bættri vetrarþjónustu að ferðamannastöðum. Auka umferðaröryggi og tryggja öryggi gangandi vegfarenda á þéttbýlum svæðum, t.d. með gerð útskota, gangbrauta og hraðahindrana.

Skólamál
Stuðla að því að skólarnir séu til fyrirmyndar og hlúa að starfi þeirra af kostgæfni. Sem ein af grunnstoðum samfélagsins skipta góðir skólar miklu fyrir ímynd sveitarfélaga og eru öflugt aðdráttarafl í eflingu byggðar.

Menningar og æskulýðsmál
Efla íþrótta- og æskulýðsstarf. Standa þétt við bakið á menningar- og félagsstarfi í sveitinni.

H-listinn mun leitast við að halda áfram með mörg þau álitlegu verkefni sem nú eru í gangi í okkar ágætu sveit og leitast við að skapa enn betra samfélag til að búa í

1. Yngvi Ragnar Kristjánsson
2. Jóhanna Katrín Þórhallsdóttir
3. Sigurður Böðvarsson
4. Guðrún Ólafía Brynleifsdóttir
5. Friðrik Jakobsson
6. Helgi Héðinsson
7. Elísabet Sigurðardóttir
8. Arnheiður Rán Almarsdóttir
9. Anton Freyr Birgisson
10. Böðvar Pétursson

Nýtt framboð í Skútustaðahreppi