Starfsmaður Skógræktar ríkisins sendir mér tóninn . . . á 641

0
409

Þröstur Eysteinsson sér ástæðu til „að kasta að mér“ og gefur í skyn að mig skorti bæði raunsæi og þekkingu.     Ekki ætla ég í sjálfu sér að deila um það við hann; en ekki virðist „hógværðin ein“ ráða máli hans eða leiðbeina honum.   Þröstur gerir sér upp ágreining við mig og gagnrýnir mig og mitt mál fyrir atriði sem ég alls ekki sagði og gerir mér einnig upp afstöðu.

Benedikt Sigurðarson

Ekkert af því sem ég tjáði í lítilfjörlegri fésbókarfærslu minni (sem birtist hér á 641.is) – eftir að hafa horft á talsvert hatramma áróðursmynd Herdísar Þorvaldsdóttur – gefur því tilefni til þeirra viðbragða sem Þröstur hefur uppi.   Það sem varð mér einkum til að tjá mig  var að myndin var á Ríkisútvarpi allra landsmanna kynnt sem „heimildarmynd“ – – sem hún sannarlega var ekki.   Þar var hallað máli og þar var lagt upp útfrá viðmiðum m.a. um fjölda fjár og ástand á gróðri,  sem tilheyrir nokkuð löngu liðnum tíma.

Tónninn í myndinni var allur í anda  síbylju og með slíku  harki sem eflir illvilja og ýtir undir ranghugmyndir milli fólks.   Slíkt er óþarfaverk og ætti þvert á móti að vera keppikefli okkar allra að víkja slíkum málflutningi til hliðar en leita þess í stað að góðviljuðum rökum og lausnum sem aðilar máls og almenningur getur tekið sameiginlega ábyrgð á og staðið að með stolti og reisn.

Aftur tekur Þröstur sem sagt upp sama tón og fráleitt að mér detti í hug að það verði endilega auðvelt fyrir mig að fá hann á nokkurt „rökræðuplan.“    Samt ætla ég að bæta við nokkrum orðum:

Ekkert í mínum pistli gefur augljóst tilefni til að álykta ég hafi ekki þekkingu eða reynslu til að meta þátt ofbeitar í gróðureyðingu á Íslandi.     Slíkar afleiðingar eru löngu þekktar og skipulag beitar og afréttarnýting á Íslandi hefur verið að laga sig að þeim veruleika – – og býsna hratt á síðustu 25 árum -með gríðarlegri fækkun sauðfjár og banni við upprekstri hrossa víða um land.

Hvergi reyni ég að gera lítið úr harkalegri umgengni forfeðranna um náttúrlega skóga – frá því við landnám – hvorki með beit nauta og svína ca fyrstu 300-400 árin –  með skógarhöggi til húsa og til kolagerðar –  eða með sauðfjárbeit fram á 20. öldina.   Undir engum kringumstæðum stenst það að ég sé á grundvelli hinnar örstuttu færslu gerður að einhvers konar fulltrúa fyrir langstæða ofbeit og landeyðingu af slíkum völdum.

Á sama hátt er ekkert sem í mínum pistli stendur sem gerir lítið úr plöntun barrviða og birkis til uppgræðslu, landbóta – – eða timburframleiðslu.   Að hvoru tveggja hef ég lagt hönd á síðustu 40 árum og  er eitthvað kunnugur því starfi sem unnið er bæði á vegum Landgræðslu og Skógræktar (bændaskóga).

Það breytir ekki því að stórfelldir ríkisstyrkir til skógræktar á grónu landi á einkaeignarjörðum – – án umhverfismats og deiliskipulags – og án skilyrðingar um endurgreiðslu eða afgjald – eru í besta falli umdeilanleg og alltaf vafasöm ráðstöfun opinbers fjármagns.   Frá sjónarmiðum skipulags og umhverfis er stórfelld gróðurbreyting ekki á neinn hátt sjálfsögð – – sérstaklega ekki þar sem nýting eða hagrænn ávinningur er ekki í auðveldu sjónmáli.   Það verða enn um sinn „mjög dýrar tekjur“ fyrir íslenska skattþegna, sem skógarbændur geta gert að sínum, með styrkjum til grisjunar í „ríkis-plöntuðum“ skógum sínum.

Hinu verður heldur ekki breytt að það var alvarlegur umhverfisglæpur að Skógrækt ríkisins skyldi leyfast að höggva niður verulega hluta af vöxtulegustu birkiskógum landsins og planta þar í staðinn barrviði undir yfirskyni timburframleiðslu.   Slíkt barbarí verður því miður ekki bætt – – en vonandi aldrei endurtekið.    Það er ekki sannleikanum samkvæmt að birkiskógur hafi vaxið upp á Hallormsstað og Vaglaskógi/Þórðarstaðaskógi og Ystafellskógi í skjóli barrviðar – – þó Þröstur virðist halda það.

Ekki er nema sjálfsagt að bændur og aðrir landeigendur girði land sitt – – og haldi búsamalann í afmörkuðum hólfum.   Með sama hætti er ekki nokkur einasta skynsemi í öðru en að nýta úthagagróður, heiðarlönd og öræfi og afrétti til beitar sauðfjár og hrossa – – með hófsömum hætti, þannig að landið rýrni ekki og afraksturinn af beitinni verði ásættanlegur.

Það hefur hins vegar orðið að einhvers konar þráhyggju í framhaldi af áróðri fyrirferðarmikilla trúboða að það eigi ekki að nýta afréttarbeit – – og það eigi fortakslaust að banna lausagöngu búfjár.

Afréttur og almenningar eru elstu hugtök sem íslensk lög innihalda þar sem almúgafólki var heimiluð umferð og nýting til beitar og í einhverjum tilvikum til veiða.   Sveitarstjórnum er falið umboð til að stýra nýtingu slíkra gæða.    Sannarlega hefur víða verið pottur brotinn á umliðnum árhundruðum – – og er eflaust í einhverjum tilvikum ennþá.    Sveitarstjórnir geta beitt ítölu og takmarka beitartímann.    Vandamálið er hins vegar sífellt smærra í sniðum  – – og ef allir aðilar standa sig þá munu menn ná ásættanlegri lendingu – – sem virðir hagsmuni náttúru og nýtingar.

Því miður hefur ríkisvæðing lands á öræfum með Þjóðlendulögum og kröfum – – orðið til þess að almannaréttur hopar og virðing fyrir afréttum og almenningum fjarar út.   Þannig hefur verið greitt fyrir „einkavæðingu“ öræfanna og mögulegri lokun með því að auðkýfingar og vildarmann valdhafanna kaupi sér land sem ekki er þegar í einkaeign.   (Jafnvel náttúruperlur eins og Öskju eða Kverkfjöll sbr. þá tillögu í frv. að afhenda Landsvirkjun þjóðlendusneið við Búrfell.)

Kannski munum við Þröstur Eysteinsson og okkar börn og barnabörn og þeirra börn lifa tíma næstu 100-200 árin þar sem engin eldgos verða og engir ísavetur og harðindasumur – með þurrk eða sífrera – – tíma þar sem árgæskan til lands og sjávar mun gerbreyta ásýnd lands og gróðurfari.

Kannski tekur þá við tímabil þar sem þessu verður þveröfugt farið – rétt eins og afar okkar og ömmur ólust upp við ferska frásögn af – – með harðindum og eldgosum – – þannig að sauðfé og hross hrynji niður um leið og gróðri hnignar.    Þá kynnu að eyðast allir hinir vöxtuglegu bændaskógar sem við landsmenn í byrjun 21. aldar höfum lagt grunn að – og feyskjast þeirra timbur.    Kannski þyrftum við ekki nema eitt virkilega öflugt Kötlu- eða Heklugos á kuldaskeiði til að hér yrði allt með öðrum svip um langa tíð.

Og auðvitað liggur fyrir þekking innanhúss hjá Skógrækt ríkisins um það hvernig Drumbaskógur á núverandi Markarfljótsaurum hefur orðið eldvirkninni að bráð og öskugrafnir skógar víða Sunnanlands segja sína sögu –  sem og umhverfi Lakagíga  – og nægilega virðast máldagar hafa skráð hvernig Möðruvallaskógar í Eyjafirði eyddust í harðviðri á 17. öld,  til þess að við Þröstur þurfum ekki að þrasa um slíkt.    Um þetta geta samstarfsmenn Þrastar örugglega leiðbeint honum og ekki skiptir nokkru máli hvað hann heldur „að ég viti ekki.“

Gildir þá líka alveg einu hvort Þröstur vitnar í Herdísi Þorvaldsdóttur, Hákon Bjarnason eða einhverja allt aðra óróðursmenn eða trúboða – – náttúruöflin gera nefnlega ekki að gamni sínu þótt blítt láti á hlýnandi tíma þessi árin.

Það ætti að vera okkur öllum sameiginlegt keppikefli að nágrannar eigist ekki illt við – – því „garður er granna sættir“ – – og engum heiðarlegum bónda getur verið það áhugamál að beita land sem hann á ekkert tilkall til.   Það er almenn regla að kostnaður af girðingum á landamerkjum skiptist á milli eigenda – – en það gengur auðvitað ekki að búfjárlausir landeigendur fái landamerkjagirðingar sínar gerðar að fullu á kostnað nágrannans.    Á sama hátt mega búfjárlausir landeigendur í sveitum ekki sleppa „meinbægni sinni alveg lausri“ og amast við því að aðrir haldi áfram hófsamri nýtingu heiðarlanda og afrétta inn á öræfi.

Skilningsleysi og virðingarleysi í samskiptum milli hópa – dómharka og hroki – – er vandamál sem þjóðin líður fyrir.   Sérstaklega er áberandi að milli Stór-höfuðborgar og hokursmanna í sveitum og með ströndum landsbyggðar er veruleg spenna í orðræðunni.

Að minni hyggju var  það ábyrgðarleysi af hálfu Ríkisútvarpsins að fara inn í þann farveg sem sýning myndar Herdísar var – undir því yfirskyni að um „heimildarmynd“ væri að ræða.   Skógrækt ríkisins stendur eflaust að mikilvægu og merku starfi, en óskandi væri að aukin áhersla yrði á næstu missirum færð yfir í það að reyna að efla skilning milli áður ólíkra sjónarmiða og taka þátt í upplýsandi samtali.

Þannig er líklegt að okkur mundi eflast lið til landbóta og hófsemdar í allri nýtingu landsins gróður-gæða.  Og auðvitað ætlum við ekki að leggja í alltof mikinn kostnað við uppgræðslu og gróðurvernd „eingöngu til skrauts“ . . .  slíkt væri ábyrgðarlaus ráðstöfun fjármuna.    Við munum á hinu leytinu hiklaust vera tilbúin að sameinast um að kosta langtímavernd og uppbyggingu  náttúrulegs gróðurfars á náttúruperlum og verndarsvæðum sem valin verða á grundvelli rökræðu og helst af öllu studdar með staðfestum meirihlutavilja þjóðarinnar.

Nóg er komið af hrokafullum einstrengingi og trúboði – jafnvel yfirgangi gagnvart þeim  sem eiga í vök að verjast – – og ekki boðlegt að almannastofnanir taki þátt í slíku – hvorki Ríkisútvarpið né Skógrækt ríkisins.

Af framansögðu má vera ljóst að ég kannast hvorki við það þekkingarleysi sem Þröstur sakar mig svo harkalega um – – og heldur ekki að það votti fyrir þeirri afstöðu sem hann gerir mér upp að ég vilji mæla bót ofbeit og landníðslu.    Þess vegna trúi ég því tæplega að þessi ágæti starfsmaður Skógræktar ríkisins geti fundið í mér þann andstæðing sem verðskuldar að til hans sé kastað með þeim hætti sem hann gerir.

 

Ath! Undirritaður Benedikt Sigurðarson er tilbúinn að játa að hann áhugamaður um skógrækt til uppgræðslu og landbóta og hófsama beitarnýtingu afrétta og heiðarlanda til stranda og öræfa.   Veit reyndar fátt dásamlegra en að fá að fara í göngur.    Hefir  lagt kapp á að virða og rækta uppruna sinn meðal bænda og umhverfisvina í dreifbýli Íslands.    Pistlahöfundurinn telur  þó að það sé ekki endilega þar með gefið að þessi afstaða og áhugamál byrgi honum sýn eða ræni hann skynsemi á nokkurn máta.

 

Benedikt Sigurðarson