Starfshópur leystur upp vegna togstreitu að sögn oddvita

0
99

Við töldum að það væri óþarfi að hafa starfshóp í gangi ef hann væri framlenging á þeirri togstreitu sem væri í sveitarstjórninni á milli meiri og minnihluta. Það væri  miklu eðlilegra að leysa þau mál beint á vettvangi sveitarstjórnar”, sagði Arnór Benónýsson oddviti Þingeyjarsveitar í spjalli við 641.is í morgun, aðspurður um af hverju starfshópur um mótvægisaðgerðir var leystur upp í síðustu viku.

Arnór Benónýsson oddviti Þingeyjarsveitar
Arnór Benónýsson oddviti Þingeyjarsveitar

“Það var ekki gert ráð fyrir því í erindibréfi starfshópsins að fundargerðir yrðu teknar fyrir í sveitarstjórn, en hins vegar er hún ekkert leyndarmál og ég mun ræða við þá aðila sem voru í hópnum hvort að hún verður birt. Ef fundargerðin veður birt þá birtist hún á vef Þingeyjarsveitar”, sagði Arnór þegar 641.is spurði hann af hverju fyrsta og eina fundargerð starfshópsins um mótvægisaðgerðir hefði ekki verið birt.

Ragnar Bjarnason
Ragnar Bjarnason

Fulltrúi minnihlutans ósammála oddvita

“Það var ákvörðun oddvita að leysa upp starfshópinn þar sem hann taldi ekki vera samstarfsgrunndvöll innan hópsins. Ég var ósammála þessu mati oddvita þar sem ég taldi vera fullan samstarfsgrunnvöll innan hópsins. Ég taldi að atvinnumálnefnd Þingeyjarsveitar ætti að fá hlutverk í þessu ferli, þar sem hópurinn átt að fjalla um atvinnumál. Það var mitt mat að virkja ætti hana enda er hún ein af fastanefndum sveitarfélgasins. Fulltrúar A-listans í sveitarstjórn voru ekki sammmála því og því var ekki lagt til að samráð yrði haft við atvinnumálanefnd í erindisbréfi starfshópsins”, sagði Ragnar Bjarnason oddviti minnihlutans og eini fulltrúi T-listans í starfshópnum sem nú er búið að leggja niður.

Erindisbréfi starfshóps til undirbúnings mótvægisaðgerða, sem búið er að leggja niður, sem sveitarstjórn samþykkti á fundi sínum 15. janúar  má lesa hér fyrir neðan

 

„Erindisbréf starfshóps til undirbúnings mótvægisaðgerða vegna breytinga á starfsemi Þingeyjarskóla skólaárið 2015 – 2016.

Erindisbréf vegna starfshóps sem sveitarstjórn Þingeyjarsveitar samþykkti 18. desember 2014 að setja á fót vegna sameiningar grunn- og tónlistardeilda Þingeyjarskóla á eina starfsstöð í húsnæði Hafralækjarskóla.

Þar sem ljóst er að þessi breyting á skólahaldi í Þingeyjarskóla mun leiða af sér fækkun  opinberra starfa í sveitarfélaginu telur sveitarstjórn mikilvægt að setja á stofn starfshóp til að leiða starf sem hefur það að markmiði að skapa tækifæri fyrir nýja starfsemi í sveitarfélaginu og eftir föngum styrkja umgjörð þeirrar starfsemi sem fyrir er.

Í starfi sínu skal hópurinn leitast við að hafa samráð við íbúa sveitarfélagsins og rekstraraðila fyrirtækja sem þar starfa.

Hópurinn skal leita utanaðkomandi ráðgjafar svo sem frá háskólum, símenntunarstöðvum, framhaldsskólum, atvinnuþróunarfélögum og öðrum stofnunum ef hópurinn telur að það gagnist verkefninu.

Hópurinn skal skila sveitarstjórn áfangaskýrslu fyrir 1. apríl 2015.“

 

Á sveitarstjórnarfundi sem hefst kl 13:00 í dag verður tekin fyrir tillaga oddvita um mótvægisaðgerðir vegna breytinga á starfsemi Þingeyjarskóla. Tillöguna má skoða hér