Starfið leggst vel í mig

0
101

Jóhann Rúnar Pálsson var ráðin skólastjóri þingeyjarskóla nýlega. 641.is langaði til að forvitnast aðeins um Jóhann og lagði því fyrir hann nokkrar spurningar.

Jóhann Rúnar Pálsson
Jóhann Rúnar Pálsson

 

Jóhann er fæddur 1. febrúar 1968. Hann starfaði sem kennari við Borgarhólsskóla á Húsavík 1993/1994 og 1996/2000.  Jóhann var í mastersnámi við íþróttaháskólann í Osló 1994/1996.  Hann flutti sig um set haustið 2000 og kenndi við Öxarfjarðarskóla til 2008.  Frá 2008 hefur Jóhann starfað sem sviðsstjóri tómstunda- og æskulýðsmála hjá sveitarfélaginu Norðurþingi.  Á námsárum Jóhanns vann hann ýmis sumarstörf s.s. verkamaður í smíðavinnu, við landbúnað og fiskeldi.  Samhliða námi og annarri vinnu hefur Jóhann þjálfað töluvert og þá aðallega handknattleik og knattspyrnu.

 

 

Hvernig leggst nýtt starf í þig?

Nýtt starf leggst vel í mig.  Verður spennandi verkefni að stýra Þingeyjarskóla.  Í starfinu felst fullt af krefjandi og eftirsóknarverðum verkefnum.  Hef alltaf haft afskaplega gaman af því að starfa með börnum og unglingum.

Má búast við einhverjum breytingum á skólahaldi með nýjum skólastjóra?

Oftast verða einhverjar breytingar með nýju fólki.  Það mun væntanlega koma í ljós með næsta vetri.

Hvernig verður íþrótta- og sundkennslu háttað næsta vetur?

Hef ekki sett það niður fyrir mér ennþá hvernig því verður háttað næsta vetur.  Vonandi getum við nýtt sem best þá góðu íþróttaaðstöðu sem er til staðar í sveitarfélaginu.

Er það rétt sem heyrst hefur að þú ætlir að heimsækja alla nemendur og foreldra þeirra áður en skólaárinu lýkur?

Ég hef mikinn hug á því að vera búinn að heimsækja alla nemendur og foreldra þeirra fyrir skólabyrjun í haust. Í mínum huga skiptir miklu máli að vera í góðu sambandi við foreldra nemenda skólans.  Ég vona að ég fái tækifæri til þess að heimsækja alla og eiga við þá spjall.  Þætti vænt um það ef foreldrar gefa mér tækifæri á því.

Hvernær verður það ljóst hvaða kennarar og hvaða starfsfólk heldur áfram störfum við Þingeyjarskóla og hverjir ekki?

Það er stefnt að því að ljúka öllum viðtölum við starfsfólk fyrir miðjan apríl.  Fyrir 1.maí þarf að vera búið að ganga frá þeim málum.

Hvaða lagfæringar/breytingar telur þú nauðsynlegar að gera sem fyrst á húsnæði Þingeyjarskóla?

Ýmsar hugmyndir eru um það hvað hægt er að gera til þess að útbúa húsnæðið sem best.  Það er  hluti þeirra verkefna sem bíða mín.

Eitthvað að lokum?

Ég er fullur tilhlökkunar á því að takast á við þau verkefni sem bíða mín með komandi nýju skólaári. Það er von mín að við getum sæst á það að búa til öflugt og samheldið skólasamfélag sem hefur fyrst og fremst hagsmuni nemandans sem leiðarljós.  Öll höfum við hlutverk í því.