Spurning um tillitssemi

0
196

Þann 21.07.2014 birtist pistill á heimasíðu 641.is undir fyrirsögninni „Marklaus skilti í Þingeyjarsveit“ eftir HK sem ég kýs að kalla pistlahöfund í þessari athugasemd minni vegna þess að ég veit ekki hver þessi HK er.

skiltið norðan við Vað
skiltið norðan við Vað.

 

Ég heiti Guðmundur E. Lárusson og er höfundur og framleiðandi á skiltunum við Vaðsveg. Skiltin eru gerð í fullu samráði við landeigendur eftir miklar vangaveltur hvernig benda megi ökumönnum á kurteisan hátt hvernig draga megi úr ryk og saltaustri sem myndast við hraðaakstur á þessum vegi í þurru veðri, mér og mínum ásamt landeigendum til mikils ama og óþæginda.

 

 

Áður en lengra er haldið upplýsist að Vegagerðin flokkar umræddan Vaðsveg sem“ heimreið“ sem Vegagerðin hefur vissulega umráðarétt yfir þar til 50 metrar eru í heimili landeiganda þá ræður landeigandi veginum en má ekki hefta för. Þingeyjarsveit hefur ekkert með skilti við vegi að gera.  Vegagerðin ræður  í ákveðinni fjarlægð frá miðlínu vegar og   landeigendur þar utar.

Um markleysi skiltanna við Vaðsveg er ég ekki sammála pistlahöfundi, en færi pistlahöfundi þakkir fyrir að hafa vakið máls á þeim.

Hvað skyldi nú standa á þessum skiltum sem fara svona í taugarnar á pistlahöfundi. Á „framhlið“ eru eftirlíkingar af umferðarskilti sem biður um 30 km.  aksturshraða. Á framhlið stendur annars vegar : RYK !!! SÝNIÐ TILLITSSEMI og hinsvegar BÖRN AÐ LEIK og beiðni um að sýna umrædda tillitssemi 1.3 km. leið.  Á bakhlið skiltanna stendur annars vegar GÓÐA FERÐ og hinsvegar ÞÖKKUM TILLITSSEMINA ásamt  mynd af broskalli í svipaðri stærð og 30 km. beiðnin. Skiltin eru 4 og eru tvö spölkorn sunnan við Vaðsbæinn  en hin tvö 1.3 km. norðar á veginum.

Eins og allir vita er alltaf gott veður í Þingeyjarsveit og á þurrum sumardögum þegar  hafgolan blæs um vanga breytist sæla í gremju þegar ökumenn þeysa um Vaðsveg eins síðustu mínútur lífsins séu að renna upp, þyrla upp ryki sem dreifist um nágrennið eins og þoka. Þá væri gott að hafa skilti þar sem vitnað væri í umferðarlög nr. 50 frá 1987 og þá með sérstakri tilvísum í 35.gr. laganna en þar segir meðal annars: Ökumaður vélknúins ökutækis skal haga meðferð þess og akstri þannig, að frá því stafi eigi hávaði eða loftmengun að óþörfu.

Ef pistlahöfundur hyggst ferðast um Vaðsveg á 80 km. hraða bið ég hann góðfúslega að láta mig vita. Ég bíð spenntur og mun stilla mér upp í brekkunni ofan við íbúðarhúsið hjá Steina og Diddu og sjá þegar þú þýtur á fullri ferð í 2 m. fjarlægð framhjá eldhúsglugganum á Vaði. Vonandi verða ekki börn að leik þá.

Besta lausnin væri að  pistlahöfundur og aðrir sýndu tillitssemi og keyrðu Vaðsveg í rólegheitum og nytu útsýnisins án þess að valda öðrum óþægindun, allir verða glaðir og skiltin verða óþörf.

Guðmundur E Lárusson.

Ath. frá ritstjóra. HK er Aðalheiður Kjartansdóttir Staðarfelli fréttaritari 641.is vestan heiðar.