Sparisjóðurinn styrkir Dagbjörtu Bjarnadóttur til náms

0
1213

Stjórn Sparisjóðs Suður-Þingeyinga ákvað á fundi sínum þann 9.8. sl. að veita Dagbjörtu Sigríði Bjarnadóttur námsstyrk að upphæð 250.000,- til að stunda nám í Jákvæðri sálfræði við Endurmenntun Háskóla Íslands.

Jákvæð sálfræði en ung grein innan sálfræðinnar þar sem áhersla er lögð á styrkleika fólks frekar en veikleika. „Að þessu námi loknu tel ég mig geta komið öflugri til starfa við hlið kennara og skólastjórnenda í markvissri vinnu í að bæta líðan barna og unglinga“ segir Dagbjört.

Dagbjört er hjúkrunarfræðingur og hefur starfað á Heilsugæslustöðinni í Mývatnssveit síðastliðin 30 ár.  Á þessum árum hefur Dagbjört átt aðkomu að fjölda verkefna sem varða heilsu og almannaheill á svæðinu. Fyrstu árin lagði hún mesta áherslu á kennslu í skyndihjálp og slysavörnum barna og kenndi þá víða í Þingeyjarsýslum. Um aldamótin vann hún ásamt stjórnendum Heilbrigðisstofnunar Þingeyinga(HÞ) að því að fá Reyksímann 800-6030 til HÞ, sem er símsvörun fyrir allt landið. Það tókst og hafði Dagbjört umsjón með því starfi til ársins 2010, en símaráðgjöfin er enn staðsett á Húsavík. Með hléum hefur hún einnig haft viðtalstíma á heilsugæslustöðinni á Laugum og undanfarin ár verið skólahjúkrunarfræðingur í framhaldsskólanum þar.

Dagbjört hefur lengi haft áhuga á að dýpka þekkingu sína á sviði forvarna  og læra nýjar leiðir til að hvetja fólk til heilsuræktar. Efling andlegs heilbrigðis er mjög mikilvæg, en eins og flestum er kunnugt á vaxandi hópur ungs fólks við kvíðavandamál að stríða. Alvarlegasta birtingarmynd þess er sú staðreynd að sjálfsvíg er algengasta dánarorsök ungra karla á Íslandi. Þetta undirstrikar hversu mikilvægt er að beina kröftum að ungu fólki.

Það er sérstakt ánægjuefni fyrir sparisjóðinn að eiga þess kost að styðja við hin góðu störf Dagbjartar í þágu íbúa svæðisins.