Sorpbrennslu hætt á Húsavík

0
146

Allri sorpbrennslu hjá Sorpsamlagi Þingeyinga verður hætt miðvikudaginn 27. mars næstkomandi. Framtíð sorpbrennslunnar á Húsavík hefur verið afar óljós síðustu vikur og mánuði. Reksturinn hefur verið erfiður en dýrar en nauðsynlegar endurbætur á tækjabúnaði verða ekki umflúnar. Því miður tókst hvorki að tryggja fjármagn til endurbóta né rekstrargrundvöll brennslunar. Mögulegt er að hefja brennslu að nýju ef rekstrargrundvöllurinn breytist verulega á næstu örfáu mánuðum.

Sorpsamlag Þingeyinga
Sorpsamlag Þingeyinga

Sorphirða í Þingeyjarsýslum verður með þeim hætti á næstunni að sorpi verður safnað ýmist í móttökustöð á Húsavík eða flokkunarstöð Gámaþjónustu Norðurlands á Akureyri, sett í flutningsgáma og ekið til urðunar í Stekkjarvík, urðunarstað Norðurár bs. nálægt Blönduósi.

Unnið verður að endurskipulagningu sorphirðu í Þingeyjarsýslum á næstu vikum þar sem áhersla verður á flokkun endurvinnsluefna frá heimilum og rekstraraðilum.

Markmið flokkunarinnar er að auka endurnýtingu og endurnotkun og minnka þar með það magn sem annars færi til urðunar. Ljóst er að flutningur sorps og endurvinnsluefna eftir þjóðvegum landins munu aukast töluvert með tilheyrandi mengun og sliti á vegum.

Þegar sorpbrennslu lýkur verður ekki mögulegt að taka á móti tilteknum úrgangsflokkum til eyðingar, svo sem áhættuvef frá sláturhúsum, sýktum dýrahræjum eða sóttmenguðum úrgangi frá sjúkrahúsum og heilbrigðisstofnunum. Spilliefnum verður hins vegar safnað áfram í móttökustöð á Húsavík og gámaplönum til sveita og komið í viðeigandi farveg, meðal annars í brennslu á Suðurnesjum eða flutt utan til frekari meðhöndlunar eða eyðingar.

Móttaka einstakra úrgangsflokka í brennslu til 27. mars verður sem hér segir:

Heyrúlluplast og hjólbarðar frá þjónustuaðilum:                 22. mars.
Heyrúlluplast frá bændum:                                                 25. mars
Dýrahræ úr Þingeyjarsýslum:                                                           25. mars
Sóttmengaður úrgangur frá heilbrigðisst. og sjúkrahúsum:            26. mars

Frekari upplýsingar um fyrirkomulag sorphirðu verður kynnt þegar það liggur fyrir.

Stjórn og eigendur Sorpsamlags Þingeyinga undrast það tómlæti sem yfirvöld hafa sýnt rekstrarumhverfi sorpbrennslna sem starfað hafa samkvæmt gildandi lögum og reglugerðum, því viðurkennt er að sorpbrennsla er nauðsynlegur þáttur í úrgangsstjórnun, ekki síst við neyðaraðstæður.

Nánari upplýsingar veitir: Hafsteinn H. Gunnarsson framkvæmdastjóri Símar: 464 1519 og 899 0022, netfang: sorpsamlag@simnet.is