Sorgleg og órökstudd gagnrýni

0
135

„Ég held það sé engin ástæða til að hafa áhyggjur af þessu máli eða dæma einn né neinn. Það er ástæðulaust að hafa áhyggjur af umgjörðinni, félagið er sjálfseignarstofnun og að viðskiptasaga stofnaðila skipti máli get ég ekki séð,“ segir Reinhard Reynisson, framkvæmdastjóri Aurora Observatory í viðtali við Akureyri Vikublað í dag.

Skúrinn sem búið er að byggja ofan á annan votheysturinn á Kárhóli.
Skúrinn sem búið er að byggja ofan á annan votheysturinn á Kárhóli.

Gagnrýni hefur komið fram m.a. í aðsendri grein hér á 641.is vegna fyrirætlana Heimskautastofnunar Kína um norðurljósarannsóknir að Kárhóli í Reykjadal. Bæði er gagnrýnd viðskiptasaga hluta þeirra Íslendinga sem viðriðnir eru verkefnið en einnig lýsa sumir áhyggjum af styrk hins volduga ríkis Kína og mögulegum afleiðingum nálægðar landanna tveggja í þessu verkefni. Reinhard bendir á að verkefnið snúist um vísindasamstarf þjóðanna á grundvelli sérstaks samstarfssamnings RANNÍS og Heimskautastofnunar Kína. Áformin feli m.a. í sér alþjóðlegt samstarf sem sé til þess fallið að efla íslenskt vísindasamfélag.

 

„Ég hef heyrt að einhverjir óttist í hvaða áttir Kínverjar muni beina myndavélum sínum á norðurslóðarannsóknarsetrinu en get upplýst að húsið er byggt þannig að aðeins er gert ráð fyrir að beina myndavélunum beint upp til himins í gegnum glerkúpu á þakinu.“

Ef vel er að gá sést glerk
Ef vel er að gáð sést glerkúpan ofan á skúrnum. (Smella á myndina til að skoða stærri upplausn.)

Hann bendir á að engar athugasemdir hafi verið gerðar við norðurljósarannsóknir Japana sem hafi stundað slíkt um árabil á Tjörnesi og að hin kínverska stofnun sé m.a. í samstarfi við þá japönsku um rannsóknir á þessu sviði. „Það er sorglegt ef svona órökstudd gagnrýni lýsir ákveðnu hugarástandi hjá þjóðinni, það er hættulegt. Ýmist er búinn til óvinur úr ESB eða núna Kína, nesjamennskan er stundum alveg að fara með okkur.“

Um það hvort staðsetning norðuljósaverkefnisins skipti máli segist Reinhard ekki sjá það að öðru leyti en að 4-5 Kínverjar bardúsandi í Reykjadal séu meira áberandi en sami fjöldi Kínverja á höfuðborgarsvæðinu. Almennt um gagnrýni á atvinnuuppbyggingu og framtak utan höfuðborgarsvæðisins telur hann þó brenna við að meirihluti fólks gagnrýni síður þær framkvæmdir sem séu á höfuðborgarsvæðinu eða í grennd við það. „Það virðist sem dæmi ekki trufla landann mjög að vita ekki hverjir standi á bak við félagið sem nýverið keypti lóðina við Hörpuna, menn leggjast ekki djúpt í skoðanir á ætterni og sögu allra sem þar standa á bak við.“